Menning

Tekur skólabækurnar með á æfingu

Álfrún Pálsdóttir skrifar
Melkorka Davíðsdóttir Pitt. Mynd/Vilhelm
Melkorka Davíðsdóttir Pitt. Mynd/Vilhelm
"Ég er miklu frekar spennt en kvíðin fyrir frumsýninguna sem er gott," segir 15 ára leikkonan Melkorka Davíðsdóttir Pitt sem fer með eitt af aðalhlutverkunum í leikritinu Fyrirheitna landið – Jerúsalem sem verður frumsýnt á laugardaginn í Þjóðleikhúsinu.

Melkorka er alvön leiksviðinu þrátt fyrir ungan aldur en hún hefur meðal annars leikið í Kardimommubænum og söngleikjunum Oliver og Galdrakarlinum í Oz. Nú er hún hins vegar í fyrsta sinn í fullorðinsleikriti og segir þá reynslu vera skemmtilega. "Þetta er öðruvísi en ég er vön. Í söngleikjum þarf maður að gefa mikla orku og syngja og dansa á sviðinu. Nú er þetta öðruvísi krefjandi og það reynir meira á leikinn," segir Melkorka en æfingar á verkinu hófust eftir áramót. "Æfingarnar hafa mest verið á kvöldin svo ég get alveg verið í skólanum. Svo reyni ég að taka skólabækurnar með og glugga í þær þegar ég hef tíma en það getur stundum verið erfitt að einbeita sér að þeim."

Melkorka er í tíunda bekk í Landakotsskóla og stefnir á Menntaskólann í Reykjavík í haust. Hún segist vel geta hugsað sér að leggja leiklistina fyrir sér í framtíðinni en hún er einnig að læra ballett í Listdansskóla Íslands. Það var einmitt rétt fyrir balletttíma sem Guðjón Pedersen, leikstjóri verksins, gaf sig á tal við Melkorku og bað hana um að koma í prufu. "Ég hef verið að velta þessu svolítið fyrir mér og get alveg hugsað mér að fara í leiklist, dans eða kannski fatahönnun. Það er eitthvað sérstakt og heillandi við leikhúsið. Skemmtilegur andi og líflegt fólk."

Leikritið Fyrirheitna landið – Jerúsalem skartar Hilmi Snæ Guðnasyni í aðalhlutverki en verkið er ekki talið við hæfi barna. Þetta er verðlaunaverk sem var frumflutt í London árið 2009 og fjallar um átök siðmenningarinnar og hins frumstæða.

Aðspurð hvort hún ætli að geri eitthvað sérstakt á frumsýningardaginn svarar Melkorka skynsamlega. "Ég held að það sé mikilvægast að sofa vel og borða hollan og góðan mat. Svo ætla ég að einbeita mér að því að hafa gaman að þessu. Við Saga Garðarsdóttir, sem er með mér í herbergi, deilum miklum súkkulaðiáhuga og ætlum að birgja okkur upp af því fyrir kvöldið."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×