Menning

Frumsýningu Falsks fugls frestað í annað sinn

Búið er að fresta frumsýningu kvikmyndarinnar Falskur fugl í annað sinn, eða til 19. apríl.

Upphaflega átti að frumsýna myndina 25. janúar en henni var svo frestað til 22. febrúar. Um þriggja mánaða seinkun er því að ræða frá upphaflegri áætlun.

Aðspurður segir handritshöfundurinn Jón Atli Jónasson ástæðuna fyrir frestuninni þá að eftirvinnslan hefur dregist á langinn og vilja menn hafa alla hluti á hreinu áður en myndin fer á hvíta tjaldið. „Þetta er ekkert óeðlilegt. Djúpinu var oft frestað því það þurfti að hanga betur yfir henni," segir Jón Atli, sem skrifaði einnig handritið að Djúpinu ásamt Baltasar Kormáki. „Þetta er lítil mynd og menn eru að gera þetta svolítið sjálfir."

Leikstjóri Falsks fugls er Þór Ómar Jónsson og með aðalhlutverkið fer Styr Júlíusson sem vandræðagemlingurinn Arnaldur. Myndin er byggð á samnefndri bók Mikaels Torfasonar frá árinu 1997. Davíð Guðbrandsson og Alexía Björg Jóhannesdóttir leika foreldra Arnalds. Meðal annarra leikara eru Rakel Björk Björnsdóttir, Aron Brink, Ísak Hinriksson og Krissi Haff.

Kvikmyndatökumaður er Christoph Nicolaisen sem tók upp stuttmyndina Toyland sem vann Óskarsverðlaunin 2009. Þór Ómar kynntist honum þegar þeir störfuðu saman við gerð lottóauglýsingar í Þýskalandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.