Menning

Viðstödd sýningar í Mexíkó

Freyr Bjarnason skrifar
Ísold Uggadóttir verður viðstödd sýningu myndar sinnar Útrás Reykjavík í Mexíkó.
Ísold Uggadóttir verður viðstödd sýningu myndar sinnar Útrás Reykjavík í Mexíkó. Mynd/Valli
Norrænu löndin eru heiðursgestir á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Guadalajara í Mexíkó sem hófst síðastliðinn föstudag og stendur yfir fram á laugardag.

Á hátíðinni eru 64 norrænar kvikmyndir sýndar, þar af sex íslenskar: Brim, Djúpið, Eldfjall, Reykjavík Rotterdam, Svartur á leik og stuttmyndin Útrás Reykjavík í leikstjórn Ísoldar Uggadóttur.

Baltasar Kormákur og Ísold verða viðstödd sýningar á sínum myndum, ásamt forstöðumanni Kvikmyndamiðstöðvar Íslands. Mynd Ísoldar verður sýnd í kvöld og annað kvöld. „Það er vissulega mikill heiður að sýna á þessari virtustu kvikmyndahátíð rómönsku Ameríku. Markmiðið með hátíðinni er auðvitað að vekja athygli á skandinavískum myndum, sem annars myndu líklega aldrei koma fyrir sjónir áhorfenda í Mexíkó og Suður-Ameríku. Hver veit nema einhver vilji kaupa Útrás Reykjavík. Það yrði ekki verra," segir Ísold um þátttöku stuttmyndar sinnar í hátíðinni.

Næst heldur myndin til Washington DC þar sem hún verður sýnd á menningarhátíðinni Nordic Cool um næstu helgi. Samanlagt hefur myndin verið sýnd á um 30 hátíðum. „Annars tel ég að þessu kvikmyndahátíðaflakki fari senn að ljúka, enda orðin bráðum tvö ár síðan Útrás Reykjavík var fyrst frumsýnd. Fókusinn er því allur kominn á næsta verkefni sem ég er að undirbúa," segir hún.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×