Menning

Breytir frumrauninni í kvikmyndahandrit

Sara McMahon skrifar
Leikhúsið heillar Ragnar Bragason vinnur að því að breyta leikverki sínu, Gullregni, í kvikmyndahandrit.
Leikhúsið heillar Ragnar Bragason vinnur að því að breyta leikverki sínu, Gullregni, í kvikmyndahandrit. fréttablaðið/Anton
"Ég er byrjaður að leggja drög að handritinu og ef allt gengur að óskum gæti ég byrjað að taka myndina upp á næsta ári," segir Ragnar Bragason, leikstjóri, sem er í óða önn að breyta leikverkinu Gullregn í kvikmyndahandrit. Verkið er frumraun Ragnars á sviði leiklistar og var frumsýnt í Borgarleikhúsinu í nóvember í fyrra.

Gullregn segir frá Indíönu sem býr í blokk í Fellahverfinu og er umkringd fólki sem hún fyrirlítur. Meðal leikenda eru Sigrún Edda Björnsdóttir, Hallgrímur Ólafsson, Halldóra Geirharðsdóttir og Brynhildur Guðjónsdóttir. Aðspurður segir Ragnar að það þurfi að huga að ýmsu þegar breyta á leikriti í kvikmyndahandrit. "Fyrst þarf að yfirstíga virðinguna fyrir frumverkinu og þegar maður skrifaði frumverkið sjálfur, þá eru tilfinningarnar djúpstæðari. Þegar Gullregn varð til sem leikverk var ég alltaf með radarinn úti og spáði í það hvernig ég gæti mögulega gert verkið að kvikmynd. Ég hripaði hugmyndirnar niður á sínum tíma og gat því gengið að þeim núna."

Hann segist vilja fá sama leikarahópinn til að endurtaka hlutverk sín í kvikmyndinni. "Ég hef leyft leikurunum að fylgjast með gangi mála og það ríkir mikil spenningur fyrir verkefninu."

Ragnar viðurkennir að þær góðu móttökur sem Gullregn hefur fengið hafi ýtt enn frekar undir þá löngun hans til að vinna meira við leikhús. "Mér finnst ágætt að blanda þessu tvennu saman. Smjörþefurinn sem ég fékk við gerð Gullregns hefur bara æst í manni hungrið," segir leikstjórinn að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.