Réttarríki viðurkennir mistök Ólafur Þ. Stephensen skrifar 26. mars 2013 06:00 Skýrsla starfshóps innanríkisráðherra um Guðmundar- og Geirfinnsmálin markar tímamót í hartnær fjörutíu ára sögu þeirra mála og raunar í sögu íslenzks réttarfars. Niðurstöður hópsins staðfesta það sem lengi hefur verið haldið fram af þeim sem dæmdir voru fyrir aðild að málunum, að stórkostlegir annmarkar voru á rannsókn málsins, réttindi voru brotin á hinum grunuðu í stórum stíl og játningar þeirra voru knúnar fram með þvingunum og ómannúðlegri meðferð. Þar á meðal var misseralöng einangrunarvist sem að mati Gísla Guðjónssonar, eins fremsta sérfræðings heims á sviði falskra játninga, á sér ekki hliðstæðu á Vesturlöndum í seinni tíð nema þá í hinum illræmdu Guantanamo-fangabúðum, þar sem Bandaríkjamenn halda grunuðum hryðjuverkamönnum. Starfshópurinn tekur ekki afstöðu til sektar eða sýknu í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum, en telur að af áðurnefndum sökum hafi ekki verið á játningum sakborninganna byggjandi fyrir dómi. Hafið sé yfir skynsamlegan vafa að framburður sakborninganna, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, hafi verið óáreiðanlegur eða falskur. Hæstiréttur hafi ekki getað metið rétt annmarkana á rannsókninni og álagið sem sakborningarnir voru undir þegar þeir játuðu. Guðmundar- og Geirfinnsmálin hafa hvílt eins og mara á íslenzku þjóðinni um áratugaskeið, raunar allt frá því að rannsóknin hófst, en hún varð þegar mjög umdeild. Eftir árangurslausar tilraunir tveggja af hinum sakfelldu til að fá málin endurupptekin fyrir Hæstarétti var loks efnt til undirskriftasöfnunar, sem Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra brást við með skipan starfshópsins. Í yfirlýsingu ráðherrans þá, fyrir hálfu öðru ári, sagði: „Að mínum dómi er það slæmt fyrir réttarkerfið – og varðar almannahag – að sú skoðun sé útbreidd í þjóðfélaginu að réttarkerfið hafi brugðist." Þetta er í raun kjarni málsins. Vinna nefndarinnar hefur nú leitt í ljós með býsna óyggjandi hætti að réttarkerfið brást. Sú niðurstaða er nokkur sigur fyrir þá sem fengu þunga fangelsisdóma, byggða á ómarktækum játningum. Málinu er hins vegar ekki lokið og verður ekki lokið nema málið fáist endurupptekið fyrir Hæstarétti. Úr því sem komið er verður það að gerast, hvaða leið sem verður farin af þeim þremur sem starfshópur ráðherra lagði til; að ríkissaksóknari beiti sér fyrir því, að einhverjir hinna sakfelldu fari fram á endurupptöku með stuðningi hins opinbera eða að Alþingi setji sérstök lög, sem kveði á um að málið verði tekið upp að nýju. Dómar Hæstaréttar eru endanlegir og skilyrði fyrir endurupptöku mála eiga að vera þröng. Eitt af grundvallaratriðum réttarríkis, sem virkar eins og það á að gera, er hins vegar að kerfið geti viðurkennt mistök þegar þau hafa átt sér stað. Skýrsla nefndar innanríkisráðherra er liður í þeirri viðurkenningu í þessum umdeildu málum – en ekki lokaskrefið. Eins og nefndin bendir á, er það endalaust verkefni að tryggja hlutleysi við meðferð sakamála á öllum stigum réttarvörzlukerfisins og að fyllsta réttaröryggis sé gætt. Í rannsókn nefndarinnar á meðferð Guðmundar- og Geirfinnsmálanna felst alvarleg áminning um hvaða afleiðingar það getur haft þegar menn missa sjónar á þessum markmiðum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Fastir pennar Ólafur Stephensen Skoðanir Mest lesið 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun
Skýrsla starfshóps innanríkisráðherra um Guðmundar- og Geirfinnsmálin markar tímamót í hartnær fjörutíu ára sögu þeirra mála og raunar í sögu íslenzks réttarfars. Niðurstöður hópsins staðfesta það sem lengi hefur verið haldið fram af þeim sem dæmdir voru fyrir aðild að málunum, að stórkostlegir annmarkar voru á rannsókn málsins, réttindi voru brotin á hinum grunuðu í stórum stíl og játningar þeirra voru knúnar fram með þvingunum og ómannúðlegri meðferð. Þar á meðal var misseralöng einangrunarvist sem að mati Gísla Guðjónssonar, eins fremsta sérfræðings heims á sviði falskra játninga, á sér ekki hliðstæðu á Vesturlöndum í seinni tíð nema þá í hinum illræmdu Guantanamo-fangabúðum, þar sem Bandaríkjamenn halda grunuðum hryðjuverkamönnum. Starfshópurinn tekur ekki afstöðu til sektar eða sýknu í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum, en telur að af áðurnefndum sökum hafi ekki verið á játningum sakborninganna byggjandi fyrir dómi. Hafið sé yfir skynsamlegan vafa að framburður sakborninganna, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, hafi verið óáreiðanlegur eða falskur. Hæstiréttur hafi ekki getað metið rétt annmarkana á rannsókninni og álagið sem sakborningarnir voru undir þegar þeir játuðu. Guðmundar- og Geirfinnsmálin hafa hvílt eins og mara á íslenzku þjóðinni um áratugaskeið, raunar allt frá því að rannsóknin hófst, en hún varð þegar mjög umdeild. Eftir árangurslausar tilraunir tveggja af hinum sakfelldu til að fá málin endurupptekin fyrir Hæstarétti var loks efnt til undirskriftasöfnunar, sem Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra brást við með skipan starfshópsins. Í yfirlýsingu ráðherrans þá, fyrir hálfu öðru ári, sagði: „Að mínum dómi er það slæmt fyrir réttarkerfið – og varðar almannahag – að sú skoðun sé útbreidd í þjóðfélaginu að réttarkerfið hafi brugðist." Þetta er í raun kjarni málsins. Vinna nefndarinnar hefur nú leitt í ljós með býsna óyggjandi hætti að réttarkerfið brást. Sú niðurstaða er nokkur sigur fyrir þá sem fengu þunga fangelsisdóma, byggða á ómarktækum játningum. Málinu er hins vegar ekki lokið og verður ekki lokið nema málið fáist endurupptekið fyrir Hæstarétti. Úr því sem komið er verður það að gerast, hvaða leið sem verður farin af þeim þremur sem starfshópur ráðherra lagði til; að ríkissaksóknari beiti sér fyrir því, að einhverjir hinna sakfelldu fari fram á endurupptöku með stuðningi hins opinbera eða að Alþingi setji sérstök lög, sem kveði á um að málið verði tekið upp að nýju. Dómar Hæstaréttar eru endanlegir og skilyrði fyrir endurupptöku mála eiga að vera þröng. Eitt af grundvallaratriðum réttarríkis, sem virkar eins og það á að gera, er hins vegar að kerfið geti viðurkennt mistök þegar þau hafa átt sér stað. Skýrsla nefndar innanríkisráðherra er liður í þeirri viðurkenningu í þessum umdeildu málum – en ekki lokaskrefið. Eins og nefndin bendir á, er það endalaust verkefni að tryggja hlutleysi við meðferð sakamála á öllum stigum réttarvörzlukerfisins og að fyllsta réttaröryggis sé gætt. Í rannsókn nefndarinnar á meðferð Guðmundar- og Geirfinnsmálanna felst alvarleg áminning um hvaða afleiðingar það getur haft þegar menn missa sjónar á þessum markmiðum.