Menning

Íslensk plaköt fyrir erlendar kvikmyndir

Kjartan Guðmundsson skrifar
Sunna Ben var mjög ánægð með að fá að hanna plakat fyrir myndina Repulsion eftir Roman Polanski. Það verður til sýnis og sölu ásamt fleiri veggspjöldum í Bíó Paradís á morgun.
Sunna Ben var mjög ánægð með að fá að hanna plakat fyrir myndina Repulsion eftir Roman Polanski. Það verður til sýnis og sölu ásamt fleiri veggspjöldum í Bíó Paradís á morgun. Mynd/Pjetur
„Ég sá minnst á þetta framtak í einhverri teiknigrúppu á Facebook og ákvað að bjóða mig fram. Sem betur fer fékk ég mynd sem ég þekki,“ segir Sunna Ben, einn rúmlega tuttugu listamanna sem sýna kvikmyndaplaköt eftir sig í Bíó Paradís á morgun, laugardag, klukkan 16.

Sýningin er haldin í tengslum við Svarta sunnudaga, vikulegar kvikmyndasýningar sem haldnar hafa verið í Bíó Paradís í vetur.

Hugleikur Dagsson, Sigurjón Kjartansson og Sjón standa að baki Svörtum sunnudögum og hafa sígildar myndir, svokallaðar „költ“-myndir eins og Beyond the Valley of the Dolls eftir Russ Meyer, Psycho eftir Alfred Hitchcock, Ferris Bueller‘s Day Off í leikstjórn John Hughes og margar fleiri verið á boðstólum fyrir íslenskt kvikmyndaáhugafólk í vetur. Enn fremur fengu skipuleggjendur Svartra sunnudaga íslenskt listafólk til að gera plaköt til að auglýsa myndirnar á sinn hátt.

Kvikmyndin sem Sunna myndskreytti er hryllingsmyndin Repulsion eftir leikstjórann Roman Polanski frá árinu 1965.

„Hugleikur bað mig um að myndskreyta Repulsion og ég var ýkt til í það enda finnst mér hún skemmtileg,“ segir Sunna og viðurkennir að hún sé óforbetranleg áhugamanneskja um óhugnalegar kvikmyndir.

„Þegar ég var unglingur horfði ég eingöngu á japanskar og kóreskar hryllingsmyndir og eyddi miklum peningum í versluninni Nexus í þá iðju. Svo hef ég haldið áfram að horfa á slíkar myndir því mér finnst svo spennandi að verða skelkuð og myrkfælin. Myndir á borð við The Shining, Rosemary‘s Baby og The Omen eru í miklu uppáhaldi hjá mér.“

Við undirbúning plakatsins horfði Sunna aftur á Repulsion, tók skjámyndir af áhugaverðum atriðum og rissaði niður á meðan áhorfinu stóð.

„Svo valdi ég mjög sjónrænt atriði úr myndinni og vann út frá því. Myndin er svarthvít svo ég gat valið litina sjálf sem var mjög gaman. Ég skoðaði líka gömul plaköt sem gerð höfðu verið fyrir myndina á sínum tíma og tók þá ákvörðun að létta aðeins yfirbragðið. Ég geri það oftast, enda er vel hægt að vera „krípí“ án þess að vera yfirþyrmandi,“ útskýrir Sunna og bætir við að henni finnist öll plakötin á sýningunni í Bíó Paradís mjög flott.

Þau verða prentuð eftir pöntun í stærðinni 70x100 cm og seld á staðnum.

Alls eru plakötin 27. Hér má skoða allt úrvalið sem er í boði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×