Menning

Hangir á hvolfi til að losna við ritstíflu

Bergsteinn Sigurðsson skrifar
Nýjustu bókar Dan Brown, Inferno, er beðið með mikilli eftirvæntingu og er hún þegar komin í efsta sæti á metsölulista Amazon í krafti forsölu.
Nýjustu bókar Dan Brown, Inferno, er beðið með mikilli eftirvæntingu og er hún þegar komin í efsta sæti á metsölulista Amazon í krafti forsölu.
Metsöluhöfundurinn Dan Brown beitir óvenjulegri aðferð til að losna við ritstíflu; hann hangir á hvolfi í sérútbúinni grind sem hann er með á skrifstofu sinni.

Brown sagði blaðamanni Sunday Times frá þessu óvanalega húsráði í viðtali um helgina. Tilefnið var næsta bók höfundarins, Inferno, sem kemur út á morgun. Bóksalar gera ráð fyrir að hún verði mest selda bók ársins, en hún trónir nú þegar á toppi metsölulista Amazon í krafti forsölu.

Fyrsti dómurinn birtist í New York Times á sunnudag. Ritrýnirinn er hæstánægður með verkið, segir Brown vefa alla þræði haganlega og hann sé nógu gáskafullur til að gera bókina að góðri afþreyingu; honum hafi tekist að skrifa eins konar „50 gráa skugga táknfræðinnar“.

Brown er annars þögull sem gröfin um söguþráð bókarinnar, fyrir utan að bókin byggir á Gleðileiknum guðdómlega eftir Dante, og segir að þetta verði sín „myrkasta bók hingað til“.

Dan Brown er einn alvinsælasti rithöfundur heims. Da Vinci lykillinn hefur selst í um 82 milljónum eintaka en síðasta bók hans, Týnda táknið, hefur verið prentuð í yfir 30 milljónum eintaka á mörgum tungumálum.

Til marks um eftirvæntinguna eftir bókinni stóð erlendum útgefendum til boða að senda þýðendur í eins konar „þýðendabúðir“, þar sem þeir fengu aðgang að handritinu. Á meðan á því stóð höfðu þeir ekki aðgang að netinu og máttu ekki hafa símasamband við neinn nema fjölskyldu sína og útgefendur.

Bjartur er útgefandi Dans Brown á Íslandi og er Inferno væntanleg í íslenskri þýðingu síðsumars eða í haust.

„Við erum á of litlum markaði til að senda þýðanda út,“ segir Guðrún Vilmundardóttir hjá Bjarti, sem fær handritið sent til þýðingar á miðnætti í kvöld – um leið og bókin kemur út. Ingunn Snædal og Arnar Matthíasson þýða bókina saman.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×