Tónlist

Skemmtileg lög um tilfinningar og dauða

Freyr Bjarnason skrifar

Sjötta plata bandarísku hljómsveitarinnar The National, Trouble Will Find Me, kemur út eftir helgi á vegum 4AD.

Þrjú ár eru liðin síðan High Violet kom út, sem margir töldu eina af plötum ársins. Í viðtali tímaritsins Uncut lýsir söngvarinn Matt Berninger mörgum lögum á Trouble Will Find Me sem „skemmtilegum lögum um dauðann“ og bætir við að þau séu beinskeyttari og tilfinningaríkari en fyrri verk hljómsveitarinnar.

Í sama viðtali segir gítarleikarinn Aaron Dessner lagið Pink Rabbits vera eins konar blöndu af The Band og frönsku hljómsveitinni Air.

The National var stofnuð í Ohio árið 1999 af Matt Berninger, bræðrunum Aaron og Bryce Dessner, og öðrum bræðrum, Scott og Bryan Devendorf. Hljómsveitin vakti almenna athygli með fjórðu plötu sinni Boxer árið 2007 sem seldist þrefalt meira en Alligator sem kom út tveimur árum áður.

High Violet sló svo rækilega í gegn og seldist í yfir 600 þúsund eintökum. Eftir 22 mánaða tónleikaferð til að fylgja eftir High Violet sneru meðlimir The National heim til sín í Brooklyn í New York. Fljótlega byrjaði Dessner að vinna að nýjum lögum og hreif félaga sína með sér.

„Eftir að við vorum búnir að fylgja High Violet eftir fannst mér eins og við værum loksins komnir þangað sem við vildum vera. Núna gátum við slakað á, ekki á metnaði okkar, heldur vegna þess að við þurftum ekki að sanna okkur lengur,“ sagði Berninger.

Til að hita upp fyrir plötuna var heimildarmyndin Mistaken For Strangers frumsýnd á kvikmyndahátíðinni Tribeca 17. apríl síðastliðinn. Hægt er að sjá sýnishorn úr myndinni í spilaranum hér fyrir ofan.

Tom Berninger, yngri bróðir söngvarans Matts, leikstýrði henni. Þar er hljómsveitinni fylgt eftir á stærstu tónleikaferð sinni til þessa og á sama tíma varpað ljósi á samband bræðranna fjögurra.

Trouble Will Find Me hefur fengið flotta dóma, eða 9 af 10 mögulegum hjá Clash og fjórar stjörnur í tímaritunum Mojo og Uncut. Hið síðastnefnda segir The National enn og aftur leita að upplyftingu í melankólíunni. Tímaritið Q er ekki eins hrifið og gefur henni þrjár af fimm mögulegum og segir að þrátt fyrir að syngja um tilfinningar hljómi stór hluti plötunnar eins og hún sé á sjálfsstýringu.

The National ætlar í tónleikaferð um heiminn til að fylgja plötunni eftir. Fyrstu tónleikarnir verða í New York í kvöld. Í sumar spilar hún á fjölda tónlistarhátíða, þar á meðal á Bonnaroo, Rock Werchter, á Hróarskeldu og á Lollapalooza. 



Spiluðu Sorrow í sex klukkustundir

The National tók þátt í gjörningi listamannsins Ragnars Kjartanssonar í New York í byrjun maí þegar hún spilaði lag sitt Sorrow af plötunni High Violet í sex klukkustundir. Alls spilaði hún lagið 105 sinnum.

Ragnar lét liðsmenn sveitarinnar fá vatn, súkkulaði og brennivín upp á svið til að halda þeim gangandi og gekk gjörningurinn eins og í sögu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.