Varðveisla og vernd Guðmundur Andri Thorsson skrifar 27. maí 2013 07:00 Áhugi forsætisráðherra á varðveislu og vernd íslensks menningararfs er lofsverður. Íslenska þjóðin er eina fólkið í heiminum með þennan tiltekna menningararf og þetta tiltekna tungumál og hefur skyldur samkvæmt því; okkur ber að sjá til þess að íslenskan deyi ekki út á nýrri tækniöld, eins og gæti hæglega gerst, heldur verði áfram notadrjúgt, lifandi og skemmtilegt mál. En ræktarsemi, virðing og varfærni gagnvart viðkvæmri sérstöðu á viðsjálli öld einsleitni og hagræðingar á ekki bara við um svo margrætt og síbreytilegt fyrirbæri sem þjóðmenning er. Slíkur hugsunarháttur á ekki síður að ráða för hjá ríkisstjórninni í umgengni við íslenska náttúru. Því miður virðast ýmis teikn á lofti þar. „Landið er fagurt og frítt…“ Íslensk náttúra er að verða æ mikilvægari hluti af íslenskri sjálfsmynd – þjóðarvitund, sé hægt að nota svo hátíðlegt orð – enda engu lík. Hér eru víðerni ósnortin og okkur er mikilvægt að skynja að þau séu það. Þegar við förum um landið skynjum við samhljóm innra með okkur við náttúruna og hversu óumræðilega mikilvægt það er okkur að hún sé ekki eyðilögð í framkvæmdaæði, um leið og við gerum okkur grein fyrir því að náttúran hefur gildi í sjálfri sér; og hlutverk okkar sé að skila gæðum hennar til eftirkomendanna. Og Ísland hefur svo sannarlega gefið okkur þegnum sínum mikið og margt: ekki bara alla þessa ægifegurð heldur líka gjöful fiskimiðin sem nærast ekki síst af framburði jökuláa (sem ekki berst til sjávar þegar virkjað er); jarðhita sem okkur tekst kannski einhvern tímann að finna aðferðir til að beisla; blessað heita vatnið; meira ríkidæmi í vatnsbúskap en víðast hvar. Umgengnin við auðlindir landsins er eitthvert mikilvægasta verkefni sem hægt er að hugsa sér fyrir stjórnmálamann á Íslandi og ber að taka alvarlega vilji menn láta taka sig alvarlega sem stjórnmálamenn. Það er afar misráðið að fela sama manni ráðherradóm yfir landbúnaði, sjávarútvegi og umhverfismálum. Þar stangast iðulega á sjónarmið náttúrufræðinga annars vegar og hins vegar þeirra sem hafa hagsmuni af því að nytja gæði jarðarinnar út frá skammtíma gróðasjónarmiðum. Miðað við málflutning Sigurðar Inga Jóhanssonar á alþingi um virkjana- og stóriðjumál er full ástæða til að óttast að hann dragi taum framkvæmdasinna. „Alltaf þegar ég heyri orðið náttúra…“ Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar blasir ekki beinlínis við ríkur skilningur á umhverfismálum. Þar er ekkert fjallað um mengun, ekkert um súrnun sjávar, ekkert um loftlagsmál, en aðeins talað um náttúruvernd í sömu andrá og nýtingu og staðhæft að Ísland hafi „sérstöðu í umhverfismálum í krafti ósnortinnar náttúru og sjálfbærrar nýtingar endurnýjanlegra auðlinda,“ og haldið áfram: „Sú ímynd er auðlind í sjálfri sér. Unnið verður að því að styrkja þá ímynd og grundvöll hennar, að vernda íslenska náttúru og efla landgræðslu og skógrækt þar sem það á við.“ Sum sé: hér er komin gamla bábiljan um að náttúruvernd felist einkum í landgræðslu og skógrækt – manngerðri „snortinni“ náttúru – og ímynd. Hin bábiljan sem skýtur hér upp kollinum er sú að hér sé „sjálfbær nýting endurnýjanlegra auðlinda“. Vonandi rennur sá dagur einhvern tímann upp, en með engu móti er hægt að tala um stórar vatnsaflsvirkjanir sem sjálfbærar eða endurnýjanlegar, enda fyllast miðlunarlón á tilteknum árafjölda, vatnafar spillist með margvíslegum afleiðingum fyrir lífríkið. Hið sama gildir um jarðhitavirkjanir, þar sem ókunn verðmæti kunna að vera í húfi á furðu órannsökuðum svæðum; borholur tæmast og brennisteinsgufum blásið yfir fólk. Loks má minna á að næst á eftir Áströlum og Bandaríkjamönnum losa Íslendingar – með alla sína „hreinu orku“ – mest af gróðurhúsalofttegundum á mann, þ.e.a.s. meðal iðnríkja og notum við þó ekki kol líkt og gert er í Ástralíu og Bandaríkjunum. Persóna í þýsku leikriti var einu sinni látin segja: Alltaf þegar ég heyri orðið menning dreg ég upp skammbyssuna mína. Viðkvæði sumra íslenskra framámanna gagnvart náttúruvernd hefur verið í þessum anda: Alltaf þegar ég heyri orðið náttúra ræsi ég jarðýtuna mína. Slíkur hugsunarháttur á ekki við á nýrri öld þar sem verðmætin verða til einungis með því að rannsaka, skoða, þekkja og kunna en ekki með því að böðlast og troðast, ólmast og rótast – og rannsaka svo. Forsætisráðherra kemur manni fyrir sjónir sem íhugull maður. Hann mætti hugleiða hvers vegna svo margt fólk sendi athugasemdir um rammaáætlun á sínum tíma í stað þess að afgreiða þær sem hvern annan fjölpóst eins og honum varð á að gera í viðtali við Helga Seljan á laugardag – hann mætti velta fyrir sér inntaki þessara athugasemda frekar en að gera lítið úr starfi þeirra náttúruverndarsamtaka sem skipulagt hafa mótmæli og aðgerðir til verndar náttúrunni; hann mætti velta fyrir sér athugasemdum sem bárust jafnt frá laxveiðimönnum sem talsmönnum ferðaiðnaðarins, næst stærstu atvinnugreinar landsins; hann mætti hugleiða hvers vegna svo margt fólk mætti í grænu gönguna þann fyrsta maí; hann mætti hugleiða hvers vegna meirihluti landsmanna – og þar á meðal kjósendur hans sem treysta honum til góðra verka – segist vera andvígur virkjana- og stóriðjustefnu. Hann mætti hugleiða hvað er í húfi og hvort maður eigi að aðhyllast jarðýtuna eða framtíðina. Sigmundur Davíð segist vilja hlusta. Hann segist vilja taka upp ný vinnubrögð í samstarfi stjórnar og stjórnarandstöðu á þingi; takast á með rökum og hrinda í framkvæmd góðum hugmyndum, jafnvel þótt þær komi frá stjórnarandstöðu – og hlusta. Engin ástæða er til að ætla að hann meini það ekki. Þess er þá að vænta að hann leggi eyrun við því sem náttúruverndarfólk og náttúrufræðingar hafa að segja. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Íslenska á tækniöld Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Svartir föstudagar í boði íslenskra stjórnvalda Haukur Guðmundsson Skoðun
Áhugi forsætisráðherra á varðveislu og vernd íslensks menningararfs er lofsverður. Íslenska þjóðin er eina fólkið í heiminum með þennan tiltekna menningararf og þetta tiltekna tungumál og hefur skyldur samkvæmt því; okkur ber að sjá til þess að íslenskan deyi ekki út á nýrri tækniöld, eins og gæti hæglega gerst, heldur verði áfram notadrjúgt, lifandi og skemmtilegt mál. En ræktarsemi, virðing og varfærni gagnvart viðkvæmri sérstöðu á viðsjálli öld einsleitni og hagræðingar á ekki bara við um svo margrætt og síbreytilegt fyrirbæri sem þjóðmenning er. Slíkur hugsunarháttur á ekki síður að ráða för hjá ríkisstjórninni í umgengni við íslenska náttúru. Því miður virðast ýmis teikn á lofti þar. „Landið er fagurt og frítt…“ Íslensk náttúra er að verða æ mikilvægari hluti af íslenskri sjálfsmynd – þjóðarvitund, sé hægt að nota svo hátíðlegt orð – enda engu lík. Hér eru víðerni ósnortin og okkur er mikilvægt að skynja að þau séu það. Þegar við förum um landið skynjum við samhljóm innra með okkur við náttúruna og hversu óumræðilega mikilvægt það er okkur að hún sé ekki eyðilögð í framkvæmdaæði, um leið og við gerum okkur grein fyrir því að náttúran hefur gildi í sjálfri sér; og hlutverk okkar sé að skila gæðum hennar til eftirkomendanna. Og Ísland hefur svo sannarlega gefið okkur þegnum sínum mikið og margt: ekki bara alla þessa ægifegurð heldur líka gjöful fiskimiðin sem nærast ekki síst af framburði jökuláa (sem ekki berst til sjávar þegar virkjað er); jarðhita sem okkur tekst kannski einhvern tímann að finna aðferðir til að beisla; blessað heita vatnið; meira ríkidæmi í vatnsbúskap en víðast hvar. Umgengnin við auðlindir landsins er eitthvert mikilvægasta verkefni sem hægt er að hugsa sér fyrir stjórnmálamann á Íslandi og ber að taka alvarlega vilji menn láta taka sig alvarlega sem stjórnmálamenn. Það er afar misráðið að fela sama manni ráðherradóm yfir landbúnaði, sjávarútvegi og umhverfismálum. Þar stangast iðulega á sjónarmið náttúrufræðinga annars vegar og hins vegar þeirra sem hafa hagsmuni af því að nytja gæði jarðarinnar út frá skammtíma gróðasjónarmiðum. Miðað við málflutning Sigurðar Inga Jóhanssonar á alþingi um virkjana- og stóriðjumál er full ástæða til að óttast að hann dragi taum framkvæmdasinna. „Alltaf þegar ég heyri orðið náttúra…“ Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar blasir ekki beinlínis við ríkur skilningur á umhverfismálum. Þar er ekkert fjallað um mengun, ekkert um súrnun sjávar, ekkert um loftlagsmál, en aðeins talað um náttúruvernd í sömu andrá og nýtingu og staðhæft að Ísland hafi „sérstöðu í umhverfismálum í krafti ósnortinnar náttúru og sjálfbærrar nýtingar endurnýjanlegra auðlinda,“ og haldið áfram: „Sú ímynd er auðlind í sjálfri sér. Unnið verður að því að styrkja þá ímynd og grundvöll hennar, að vernda íslenska náttúru og efla landgræðslu og skógrækt þar sem það á við.“ Sum sé: hér er komin gamla bábiljan um að náttúruvernd felist einkum í landgræðslu og skógrækt – manngerðri „snortinni“ náttúru – og ímynd. Hin bábiljan sem skýtur hér upp kollinum er sú að hér sé „sjálfbær nýting endurnýjanlegra auðlinda“. Vonandi rennur sá dagur einhvern tímann upp, en með engu móti er hægt að tala um stórar vatnsaflsvirkjanir sem sjálfbærar eða endurnýjanlegar, enda fyllast miðlunarlón á tilteknum árafjölda, vatnafar spillist með margvíslegum afleiðingum fyrir lífríkið. Hið sama gildir um jarðhitavirkjanir, þar sem ókunn verðmæti kunna að vera í húfi á furðu órannsökuðum svæðum; borholur tæmast og brennisteinsgufum blásið yfir fólk. Loks má minna á að næst á eftir Áströlum og Bandaríkjamönnum losa Íslendingar – með alla sína „hreinu orku“ – mest af gróðurhúsalofttegundum á mann, þ.e.a.s. meðal iðnríkja og notum við þó ekki kol líkt og gert er í Ástralíu og Bandaríkjunum. Persóna í þýsku leikriti var einu sinni látin segja: Alltaf þegar ég heyri orðið menning dreg ég upp skammbyssuna mína. Viðkvæði sumra íslenskra framámanna gagnvart náttúruvernd hefur verið í þessum anda: Alltaf þegar ég heyri orðið náttúra ræsi ég jarðýtuna mína. Slíkur hugsunarháttur á ekki við á nýrri öld þar sem verðmætin verða til einungis með því að rannsaka, skoða, þekkja og kunna en ekki með því að böðlast og troðast, ólmast og rótast – og rannsaka svo. Forsætisráðherra kemur manni fyrir sjónir sem íhugull maður. Hann mætti hugleiða hvers vegna svo margt fólk sendi athugasemdir um rammaáætlun á sínum tíma í stað þess að afgreiða þær sem hvern annan fjölpóst eins og honum varð á að gera í viðtali við Helga Seljan á laugardag – hann mætti velta fyrir sér inntaki þessara athugasemda frekar en að gera lítið úr starfi þeirra náttúruverndarsamtaka sem skipulagt hafa mótmæli og aðgerðir til verndar náttúrunni; hann mætti velta fyrir sér athugasemdum sem bárust jafnt frá laxveiðimönnum sem talsmönnum ferðaiðnaðarins, næst stærstu atvinnugreinar landsins; hann mætti hugleiða hvers vegna svo margt fólk mætti í grænu gönguna þann fyrsta maí; hann mætti hugleiða hvers vegna meirihluti landsmanna – og þar á meðal kjósendur hans sem treysta honum til góðra verka – segist vera andvígur virkjana- og stóriðjustefnu. Hann mætti hugleiða hvað er í húfi og hvort maður eigi að aðhyllast jarðýtuna eða framtíðina. Sigmundur Davíð segist vilja hlusta. Hann segist vilja taka upp ný vinnubrögð í samstarfi stjórnar og stjórnarandstöðu á þingi; takast á með rökum og hrinda í framkvæmd góðum hugmyndum, jafnvel þótt þær komi frá stjórnarandstöðu – og hlusta. Engin ástæða er til að ætla að hann meini það ekki. Þess er þá að vænta að hann leggi eyrun við því sem náttúruverndarfólk og náttúrufræðingar hafa að segja.