Ekki hræra í aflareglunni Ólafur Þ. Stephensen skrifar 27. maí 2013 07:00 Í sjávarútvegskafla stefnuyfirlýsingar nýju ríkisstjórnarinnar horfir flest til betri vegar. Stjórnin ætlar ekki að fara í neinar kollsteypur á stjórnkerfi fiskveiða eins og sú sem sat á undan henni stefndi að, heldur þvert á móti að búa greininni stöðugt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi sem hvetji til fjárfestinga og atvinnusköpunar. Það er sömuleiðis til þess fallið að skapa sátt um rekstrarumhverfi sjávarútvegsins að halda fast við grundvallarprinsippið um að greinin greiði gjald fyrir afnot sín af auðlindinni og að úthlutun aflaheimilda sé ekki varanleg, heldur samkvæmt tímabundnum nýtingarsamningum sem síðan megi endurnýja að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Hins vegar ætlar stjórnin að endurskoða innheimtu veiðigjaldsins, þannig að almenna veiðigjaldið endurspegli afkomu greinarinnar í heild, en það sérstaka taki sem mest mið af afkomu einstakra fyrirtækja. Þegar eru komnir í ljós alvarlegir gallar í veiðigjaldskerfinu, sem hafa í för með sér að það leggst afar þungt á einstakar útgerðir, sérstaklega lítil og meðalstór fyrirtæki. Innan um þessar góðu hugmyndir og margar aðrar í sjávarútvegskaflanum er hins vegar ein varasöm. Hún er orðuð svona: „Stefnt er að því að auka sveigjanleika í nýtingarstefnu án þess að fórna ábyrgri stjórnun og nýtingu veiðistofna.“ Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra sjávarútvegsmála, útskýrði þetta þannig í Fréttablaðinu á föstudag: „Við erum með 20% aflareglu í þorski og það er markmið að setja slíkar reglur á aðrar tegundir til að tryggja sjálfbærni og að menn gangi skynsamlega um auðlindina. Því hefur hins vegar ekki verið mótmælt að það væri hægt að hafa stefnuna sveigjanlegri. Það gæti falist í því að í stað tuttugu prósentanna gæti hlutfallið verið 19 til 23 prósent, svo dæmi sé tekið.“ Uppbygging þorskstofnsins á undanförnum árum er ekki sízt að þakka aflareglunni, sem komið var á 1995. Í sinni núverandi mynd er hún þannig að ekki eigi að veiða meira en 20% af þorski eldri en fjögurra ára, að því gefnu að hrygningarstofninn haldist stærri en 220.000 tonn. Sjávarútvegsráðherrar undangenginna ára hafa staðizt þrýsting frá ýmsum hagsmunaaðilum um að kreista nokkur þúsund tonnum meira af þorski út úr aflaúthlutuninni með því að víkja frá aflareglunni. Ef aflareglan hefði ekki verið fyrir hendi væri ástandið á stofninum verra en raun ber vitni. Hins vegar hafa ráðherrarnir freistazt til að leyfa á móti meiri veiði úr öðrum nytjastofnum, sem ekki eru jafnmikilvægir og þorskurinn. Afleiðingin hefur verið sú að þeir standa sumir illa, sérstaklega ýsan, og þess vegna er mikilvægt að koma einnig á aflareglu fyrir þessa stofna - helzt sem flesta. Markmiðið með aflareglu er einmitt að „sveigjanleikinn“ sem stjórnmálamennirnir eru iðulega hvattir til að nýta sér, sé ekki fyrir hendi, heldur séu þeir varðir fyrir freistingunum með skýrri reglu, sem byggir á vísindalegum rannsóknum. Það væru mistök að víkja frá þeirri stefnu til að krækja í dálítið meiri fisk til skemmri tíma. Og færi gegn markmiðum stjórnarsáttmálans um að halda sjálfbærni veiðanna á lofti á alþjóðlegum vettvangi. Það á ekki að krukka í aflaregluna. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið RÚV og litla vandamálið Ásgeir Sigurðsson Skoðun ESB aðild eða fylki í USA, eða bara gamla Ísland og blessuð krónan? Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Það tapa allir á orkuskortinum Guðríður Eldey Arnardóttir Skoðun Undirgefni, trúleysi og tómarúm Einar Baldvin Árnason Skoðun Reistu hamingjunni heimili Árni Sigurðsson Skoðun Takk Björgvin Njáll, eða þannig Ólafur Þór Ólafsson Skoðun Sertral eða sálfræðimeðferð Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Heilbrigðiskerfi framtíðarinnar Victor Guðmundsson Skoðun Aðför að réttindum verkafólks Aðalsteinn Árni Baldursson Skoðun Er sjávarútvegur einkamál kvótakónga? Finnbjörn A. Hermannsson Skoðun
Í sjávarútvegskafla stefnuyfirlýsingar nýju ríkisstjórnarinnar horfir flest til betri vegar. Stjórnin ætlar ekki að fara í neinar kollsteypur á stjórnkerfi fiskveiða eins og sú sem sat á undan henni stefndi að, heldur þvert á móti að búa greininni stöðugt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi sem hvetji til fjárfestinga og atvinnusköpunar. Það er sömuleiðis til þess fallið að skapa sátt um rekstrarumhverfi sjávarútvegsins að halda fast við grundvallarprinsippið um að greinin greiði gjald fyrir afnot sín af auðlindinni og að úthlutun aflaheimilda sé ekki varanleg, heldur samkvæmt tímabundnum nýtingarsamningum sem síðan megi endurnýja að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Hins vegar ætlar stjórnin að endurskoða innheimtu veiðigjaldsins, þannig að almenna veiðigjaldið endurspegli afkomu greinarinnar í heild, en það sérstaka taki sem mest mið af afkomu einstakra fyrirtækja. Þegar eru komnir í ljós alvarlegir gallar í veiðigjaldskerfinu, sem hafa í för með sér að það leggst afar þungt á einstakar útgerðir, sérstaklega lítil og meðalstór fyrirtæki. Innan um þessar góðu hugmyndir og margar aðrar í sjávarútvegskaflanum er hins vegar ein varasöm. Hún er orðuð svona: „Stefnt er að því að auka sveigjanleika í nýtingarstefnu án þess að fórna ábyrgri stjórnun og nýtingu veiðistofna.“ Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra sjávarútvegsmála, útskýrði þetta þannig í Fréttablaðinu á föstudag: „Við erum með 20% aflareglu í þorski og það er markmið að setja slíkar reglur á aðrar tegundir til að tryggja sjálfbærni og að menn gangi skynsamlega um auðlindina. Því hefur hins vegar ekki verið mótmælt að það væri hægt að hafa stefnuna sveigjanlegri. Það gæti falist í því að í stað tuttugu prósentanna gæti hlutfallið verið 19 til 23 prósent, svo dæmi sé tekið.“ Uppbygging þorskstofnsins á undanförnum árum er ekki sízt að þakka aflareglunni, sem komið var á 1995. Í sinni núverandi mynd er hún þannig að ekki eigi að veiða meira en 20% af þorski eldri en fjögurra ára, að því gefnu að hrygningarstofninn haldist stærri en 220.000 tonn. Sjávarútvegsráðherrar undangenginna ára hafa staðizt þrýsting frá ýmsum hagsmunaaðilum um að kreista nokkur þúsund tonnum meira af þorski út úr aflaúthlutuninni með því að víkja frá aflareglunni. Ef aflareglan hefði ekki verið fyrir hendi væri ástandið á stofninum verra en raun ber vitni. Hins vegar hafa ráðherrarnir freistazt til að leyfa á móti meiri veiði úr öðrum nytjastofnum, sem ekki eru jafnmikilvægir og þorskurinn. Afleiðingin hefur verið sú að þeir standa sumir illa, sérstaklega ýsan, og þess vegna er mikilvægt að koma einnig á aflareglu fyrir þessa stofna - helzt sem flesta. Markmiðið með aflareglu er einmitt að „sveigjanleikinn“ sem stjórnmálamennirnir eru iðulega hvattir til að nýta sér, sé ekki fyrir hendi, heldur séu þeir varðir fyrir freistingunum með skýrri reglu, sem byggir á vísindalegum rannsóknum. Það væru mistök að víkja frá þeirri stefnu til að krækja í dálítið meiri fisk til skemmri tíma. Og færi gegn markmiðum stjórnarsáttmálans um að halda sjálfbærni veiðanna á lofti á alþjóðlegum vettvangi. Það á ekki að krukka í aflaregluna.