Menning

Geimverurnar lenda á Snæfellsnesi

Bergsteinn Sigurðsson skrifar
Víkingur Kristjánsson og Kári Viðarsson
Víkingur Kristjánsson og Kári Viðarsson
„Þessi atburður hefur alltaf setið í mér og mig hefur lengi langað til að gera leiksýningu um hann,“ segir Kári Viðarsson, sem ásamt Víkingi Kristjánssyni semur og setur upp leiksýninguna 21.07, sem frumsýnd verður í Frystiklefanum á Rifi fimmtudaginn 27. júní.

Verkið fjallar um fræga og undarlega uppákomu sem varð fyrir tæpum tuttugu árum síðan, nánar tiltekið 5. nóvember 1993. Þá hópaðist á sjötta hundrað áhugamanna um geimverur og fljúgandi furðuhluti vestur á Snæfellsjökul til að verða vitni að heimsókn úr geimnum, sem sjáendur víðs vegar um heiminn höfðu séð fyrir. Tímasetning lendingarinnar var nákvæm en gestirnir áttu að lenda á slaginu 21.07 um kvöldið. Íbúar á utanverðu Snæfellsnesi fóru ekki varhluta af þessum viðburði, og þeirri athygli sem hann vakti í innlendum og erlendum fjölmiðlum. Þegar á hólminn var komið létu engar geimverur sjá sig.

Atburðurinn er ljóslifandi í minni Kára; árið 1993 var hann átta ára gamall og bjó á Hellissandi, þar sem dreifibréf var borið í hvert hús og koma geimveranna var kunngjörð.

„Ég man að þetta hafði djúp áhrif á mig á sínum tíma,“ rifjar Kári upp. „Ég var dálítið ímyndunarveikt barn og varð sannfærður um að heimsendir væri yfirvofandi. Fyrir vikið hef ég alltaf haft það á bak við eyrað að gera leiksýningu um þetta mál. Mín sýn var að skoða þetta frá fleiri vinklum en að þetta hafi bara verið fyndin uppákoma heldur gera ólíkum sjónarhornum skil, þar á meðal mínu persónulega sjónarhorni.“

Á sjotta hundrað manns safnaðist saman við norðurjaðar Snæfellsjökul 5. nóvember 1993, þar sem sjáendur höfðu sagt að geimverur myndu lenda.
Verkið gerist klukkustundina áður en geimverurnar eiga að lenda. 

„Við fáum að kynnast fjölda persóna og upplifum atburðinn með þeirra augum,“ segir Kári. „Þarna fléttast saman sex eða sjö sögur þar sem sjónarhornið breytist eftir því hver á í hlut og viðhorf viðkomandi til þess sem er að gerast.“

Það mæðir mikið á Víkingi og Kára, því þeir leika öll hlutverkin en alls koma á bilinu fimmtán til tuttugu persónur við sögu, sem allar eiga sér raunverulegar fyrirmyndir en margra mánaða heimildarvinna liggur að baki sýningunni. 

„Ég tók fullt af viðtölum við fólk sem kom við sögu, bæði heimamenn og fólk sem býr í Reykjavík. Ég fór líka í gegnum gagnasafn RÚV og við fengum heimamenn til að senda okkur efni, ýmist sögur, ljósmyndir eða vídeóupptökur. Sýningin byggir á þessari vinnu en svo auðvitað ýkjum við ýmislegt og stækkum til að búa til núningsfleti og togstreitu fyrir sýninguna.“ 

Fimm sýningar eru á dagskrá í Frystiklefanum en Kári segir koma til greina að fjölga sýningum ef aðsókn verður góð. 

„Ég geri samt ekki ráð fyrir að við sýnum þetta verk oftar en sjö sinnum í sumar.“ 

En á sýningin eftir að fara á flakk?

„Nei, ekki séns. Það er stutt á Rif úr Reykjavík og reynslan hefur sýnt að fólk er reiðubúið að leggja land undir fót til að sjá sýningar í Frystiklefanum. Þessi sýning fer ekki neitt.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.