Menning

Bókin sem fékk annað tækifæri

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Eyrún Ýr segir farir sínar ekki sléttar í samskiptum við útgáfufyrirtækið Publish Islandica, sem upphaflega gaf Annað tækifæri út .
Eyrún Ýr segir farir sínar ekki sléttar í samskiptum við útgáfufyrirtækið Publish Islandica, sem upphaflega gaf Annað tækifæri út . .Mynd úr einkasafni
Eyrún Ýr Tryggvadóttir er glæpasagnahöfundur sem sent hefur frá sér þrjár spennusögur. Reyndar fjórar ef grannt er skoðað, fyrsta bókin Annað tækifæri kom út 2004, hvarf í fjölda ára en hefur nú verið endurútgefin í örlítið breyttri mynd.

„Þetta var fyrsta bókin sem ég skrifaði og kom upphaflega út árið 2004 hjá fyrirtæki sem hét Publish Islandica, en hvarf alveg gjörsamlega og hefur verið ófáanleg nánast alla tíð,“ segir Eyrún Ýr Tryggvadóttir um bókina Annað tækifæri sem nú hefur verið endurútgefin hjá Sölku. „Ég skrifaði hana að mestu leyti árið 2003 og sá svo auglýst eftir handritum til útgáfu hjá þessu fyrirtæki, sendi það inn og fékk útgáfusamning.“



Bókin var gefin út, en ekki dreift í verslanir og Eyrún segist aldrei hafa fengið nein svör frá fyrirtækinu þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. „Þetta var allt hið dularfyllsta mál. Fólk átti að geta keypt bókina á netinu en fékk hana aldrei senda. Bókabúðin hérna á Húsavík náði nokkrum eintökum, seldi þau og bað um fleiri sem aldrei bárust. Ég fékk send tvö eintök en heyrði svo aldrei púst frá fyrirtækinu meir. Bókin er til á þremur eða fjórum bókasöfnum á landinu, en hefur annars verið gjörsamlega ófáanleg í öll þessi ár.“



Breyttirðu henni eitthvað fyrir þessa útgáfu?

„Örlítið, já. Þessi bók er samt mun léttari en hinar skáldsögurnar mínar. Myndi lenda í flokknum ástir og afbrot ef hún væri í rauðu seríunni. Og mér dettur ekki í hug að halda því fram að hún sé neitt annað en létt afþreying.“



Eyrún hefur sent frá sér fjórar bækur fyrir utan Annað tækifæri, þrjár spennusögur og eina unglingabók sem hún skrifaði í samstarfi við Kristjönu Maríu Kristjánsdóttur. Allar þrjár skáldsögurnar fyrir fullorðna hafa verið tilnefndar til Blóðdropans, hinna íslensku glæpasagnaverðlauna, en samt hváir fólk þegar það heyrir nafnið hennar. Hefur hún einhverja skýringu á því?

„Það er sennilega bara spurning um að eyða meiru í auglýsingar. Þú verður að ræða það við Sölku,“ segir Eyrún glottandi. „Svo er ég auðvitað minna sýnileg en margir aðrir rithöfundar, þar sem ég bý úti á landi og er ekkert að mæta í boðin þarna fyrir sunnan. Síðan held ég að þetta snúist líka um það að hafa ekki verið þýdd á erlend tungumál. Það breytir miklu fyrir höfunda.“



Þú býrð á Húsavík. Ertu þaðan?

„Já, og hef nánast alltaf búið hér fyrir utan nokkurra ára dvöl í Reykjavík og á Akureyri í námi. Ég er í sambúð og á tvö börn og í mínum huga var það aldrei valkostur að ala börnin mín upp í Reykjavík. Ekki að ég hafi prófað það, en ég allavega ímynda mér það. Heima er best.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.