Menning

Óður til leiksins og forvitninnar

Bergsteinn Sigurðsson skrifar
Sara Riel Hefur einkum látið að sér kveða í götulist en kemur sér nú fyrir í Listasafni Íslands.
Sara Riel Hefur einkum látið að sér kveða í götulist en kemur sér nú fyrir í Listasafni Íslands.
„Það má segja að náttúrugripasafnið sé brunnur til að sækja myndefni í,“ segir myndlistarkonan Sara Riel um sýningu sína, Memento Mori, sem opnuð verður í Listasafni Íslands í kvöld.

Á sýningunni sýnir Sara ólík verk af ýmsum gerðum, – prentverk, silkiþrykk, vídeóverk, ljósmyndir, klippiverk, skúlptúra, málverk – sem eiga það þó sameiginlegt að vera unnin út frá flokkunarfræðum náttúrunnar. Sýningin á sér þriggja ára aðdraganda, allt frá því þegar Sara fór að rýna í hvers konar myndlist fólk hefði á veggjum hjá sér og tók eftir að náttúran eða tilvísanir í hana voru langvinsælasta stefið.

„Ég er líka leiðsögumaður og var oft spurð hvar náttúrugripasafn okkar Íslendinga væri og þurfti að svara sem var að það væri ekki til. Jú, við eigum til muni á það en þeir velkjast einhvern veginn á milli Náttúruminjasafns Íslands og Náttúrufræðisafns Íslands. Það fannst mér bjóða upp á ákveðið samfélagslegt samtal: af hverju eiga Íslendingar ekki almennilegt náttúrugripasafn?“

Í kjölfarið lagðist Sara í rannsóknir og fór á flakk ásamt Davíð Erni Halldórssyni myndlistarmanni, þar sem þau skoðuðu lista- og náttúrugripasöfn í London, Berlín og París.

„Við vildum sjá hvernig þetta er útfært; hvernig er andrúmsloftið og svo framvegis. Veiðisafnið í París var mikill innblástur því þar taka þeir öll þessi element sem eru í boði og leika sér með framsetninguna en allt í viktoríönskum stíl.“

Í framhaldinu fór Sara að stúdera náttúruvísindin og ákvað að vinna út frá ríkjaflokkum náttúrunnar.

„Menn greinir að vísu á hversu mörg ríki náttúran skiptist í. Ég tók fimm fyrir og allur innblástur sýningarinnar kemur úr dýraríkinu, svepparíkinu, steinaríkinu, ríki einfrumunga og svo fjölfrumunga.“

Sara segir leit og forvitni hafa ráðið útfærslunni á hverju verki fyrir sig; hún hafi leitast við að brjóta ýmis fyrirbæri niður og raðað þeim upp á nýtt. Nafn sýningarinnar Memento Mori merkir „minnstu þess að þú ert dauðlegur“.

„Þetta miðar að því að minna fólk á að njóta tilverunnar meðan tími er til. Horfa, skoða, taka í sundur, setja saman á annan hátt og vera forvitinn.“

Verkið Sporfugl er meðal verka á sýningunni Memento Mori.
Sara hefur hingað til einkum látið að sér kveða í veggjalist eða graffi, stundum nefnd götulist. Spurð hvort sýningin í Listasafni Íslands boði á einhvern hátt fráhvarf eða kúvendingu frá götulistinni svarar hún afdráttarlaust neitandi. 

„Ég held áfram að vinna að götulistinni og er að gera röð veggmynda út frá þessu þema víðsvegar um bæinn; til dæmis verkið Fönix við Nýlendugötu, sem er unnið út frá dýraríkinu, og Svepp við Hverfisgötu sem sækir í svepparíkið.“ 

Sara segist hafa lengi haft fyrirvara á „listastofnunum“ og hafa dregist að götulist því hún hafi verið laus við skrifræði, formlegheit og háalvarlegt yfirbragð. Hún segir þetta þó ekki þvælast lengur fyrir sér en segir ákveðinn mun á því að sýna á formlegu listasafni og á strætum úti. 

„Í fyrsta lagi myndi ég ekki gera götulist á listasafni; það væri tilgangslaust að mála á veggina því þetta er allt annað umhverfi. Í öðru lagi þá er sambandið við umhverfið allt öðruvísi. Þegar maður vinnur að veggjalist hikar fólk ekki við að koma upp að manni þegar maður er vinna og spyrja út í hitt og þetta. Þá verður til raunverulegt og milliliðalaust samtal. 

Á safni verður fólk hins vegar passívara og finnst það kannski ekki hafa forsendur til að spyrja út í verkin, ekki vita nóg. Mér finnst þessi mörk ekki skipta máli og vona að fólk verði forvitið og ræðið um verkin mín á Listasafninu og þau sem ég mála á veggi.“ 

Memento Mori stendur til 25. ágúst.


Tengdar fréttir

Framþróun í veggjalistaverkum borgarinnar

Mikil þróun hefur verið í veggjalist, sem sumir kalla reyndar veggjakrot, á höfuðborgarsvæðinu undanfarna mánuði að sögn myndlistamannsins Söru Riel sem á mörg af þekktstu verknum sem prýða höfuðborgina. Vinnu sína og efni í verkin hefur hún oftast gefið og fengið leyfi frá eigendum húsanna til að setja þau upp enda væri víst ekki annað hægt því mörg þeirra tók mjög langan tíma að vinna að og undirbúa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×