Eru netþjófar betri þjófar? Ólafur Þ. Stephensen skrifar 13. ágúst 2013 07:00 Forsvarsmenn deildu.net, skráadeilisíðu sem hefur misserum saman dreift höfundarréttarvörðu efni ólöglega á internetinu, ákváðu fyrir skemmstu að leyfa notendum síðunnar að deila sín á milli íslenzku efni, en ekki einvörðungu erlendu. Með því verður lögbrotið sem þeir og notendur síðunnar fremja nálægara og áþreifanlegra; þeir koma í veg fyrir að íslenzkir listamenn og aðrir sem taka þátt í að skapa verk á borð við kvikmyndir, sjónvarpsþætti og tónlist, fái sanngjarnt gjald fyrir vinnu sína og ágóða af sölu hugverkanna. Það er verið að hafa lífsviðurværið af vinum okkar, nágrönnum og ættingjum – stela af þeim – ekki bara einhverjum útlendingum. Enda þurfti þetta til að lögreglan setti aukinn kraft í rannsókn á deildu.net. Starfsemi síðunnar var kærð fyrir löngu, en lögreglan hefur lítið aðhafzt. Og er kannski vorkunn, því að vefurinn er hýstur erlendis og snúið að ná til ábyrgðarmannanna. Málið er reyndar allt erfitt við að eiga. Fáir reyna að halda því fram að skráadeiling á netinu sé ekki brot á höfundarrétti. Þróun internetsins hefur hins vegar gert að verkum að stuldur á hugverkum og brot á rétti höfunda þeirra er afskaplega einfaldur og auðveldur. Og aðgerðir til að vernda höfundarréttinn á netinu geta leitt til brota á annars konar réttindum; ef elta á uppi einstaka netnotendur sem hlaða niður ólöglegu efni útheimtir það einhvers konar eftirlit með netnotkun. Evrópudómstóllinn hefur úrskurðað að það færi gegn lögum að skylda netþjónustufyrirtæki til að setja upp síur til að koma í veg fyrir að notendur nálgist efni sem er dreift ólöglega. Öðru máli gegnir um hvort hægt sé að loka einstökum síðum sem augljóslega hafa þann megintilgang að brjóta á höfundarrétti. Slíkt getur tæplega skert margumrætt netfrelsi, enda felur það varla í sér að gera megi hvað sem er á netinu. Í helgarblaði Fréttablaðsins kom þó fram að fjarskiptafyrirtæki telja sig skorta lagaheimildir til að loka fyrir aðgang að einstökum síðum án atbeina yfirvalda. Það er kannski engin furða; yfirvöldin eru fálmandi og þegar höfundalögin eru lesin er auðvelt að fá á tilfinninguna að internetið sé ekki til. Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur benti hins vegar á aðra hlið málsins í pistli sínum hér í blaðinu í gær: „Það að erfitt sé að koma alls staðar með lögregluaðgerðum í veg fyrir einhverja mannlega iðju getur aldrei táknað að samfélagið eigi þar með að fallast á hana,“ skrifar hann. Og bætir við að þótt tæknilega sé mögulegt að gera eitthvað, verði það ekki þar með sjálfkrafa æskilegt. Þetta er nefnilega siðferðisspurningin sem snýr að okkur sem notum netið, hverju og einu. Ætlum við að stela efni þar bara af því að það er auðvelt og enginn að fylgjast með? Er siðferðilega réttara að stela bók sem bóksalinn hefur sett á borð úti á gangstétt en bók sem er í hillu inni í búð og varin af þjófavarnakerfi? Auðvitað ekki. Löglegum leiðum til að nálgast kvikmyndir, þætti og tónlist á internetinu fer fjölgandi. Við eigum að notfæra okkur þær og standast freistinguna að stela – þótt það sé auðvelt. Og brýna það sama fyrir börnunum okkar, rétt eins og við segjum þeim að það sé rangt að stela úr búðarhillum. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Svartir föstudagar í boði íslenskra stjórnvalda Haukur Guðmundsson Skoðun
Forsvarsmenn deildu.net, skráadeilisíðu sem hefur misserum saman dreift höfundarréttarvörðu efni ólöglega á internetinu, ákváðu fyrir skemmstu að leyfa notendum síðunnar að deila sín á milli íslenzku efni, en ekki einvörðungu erlendu. Með því verður lögbrotið sem þeir og notendur síðunnar fremja nálægara og áþreifanlegra; þeir koma í veg fyrir að íslenzkir listamenn og aðrir sem taka þátt í að skapa verk á borð við kvikmyndir, sjónvarpsþætti og tónlist, fái sanngjarnt gjald fyrir vinnu sína og ágóða af sölu hugverkanna. Það er verið að hafa lífsviðurværið af vinum okkar, nágrönnum og ættingjum – stela af þeim – ekki bara einhverjum útlendingum. Enda þurfti þetta til að lögreglan setti aukinn kraft í rannsókn á deildu.net. Starfsemi síðunnar var kærð fyrir löngu, en lögreglan hefur lítið aðhafzt. Og er kannski vorkunn, því að vefurinn er hýstur erlendis og snúið að ná til ábyrgðarmannanna. Málið er reyndar allt erfitt við að eiga. Fáir reyna að halda því fram að skráadeiling á netinu sé ekki brot á höfundarrétti. Þróun internetsins hefur hins vegar gert að verkum að stuldur á hugverkum og brot á rétti höfunda þeirra er afskaplega einfaldur og auðveldur. Og aðgerðir til að vernda höfundarréttinn á netinu geta leitt til brota á annars konar réttindum; ef elta á uppi einstaka netnotendur sem hlaða niður ólöglegu efni útheimtir það einhvers konar eftirlit með netnotkun. Evrópudómstóllinn hefur úrskurðað að það færi gegn lögum að skylda netþjónustufyrirtæki til að setja upp síur til að koma í veg fyrir að notendur nálgist efni sem er dreift ólöglega. Öðru máli gegnir um hvort hægt sé að loka einstökum síðum sem augljóslega hafa þann megintilgang að brjóta á höfundarrétti. Slíkt getur tæplega skert margumrætt netfrelsi, enda felur það varla í sér að gera megi hvað sem er á netinu. Í helgarblaði Fréttablaðsins kom þó fram að fjarskiptafyrirtæki telja sig skorta lagaheimildir til að loka fyrir aðgang að einstökum síðum án atbeina yfirvalda. Það er kannski engin furða; yfirvöldin eru fálmandi og þegar höfundalögin eru lesin er auðvelt að fá á tilfinninguna að internetið sé ekki til. Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur benti hins vegar á aðra hlið málsins í pistli sínum hér í blaðinu í gær: „Það að erfitt sé að koma alls staðar með lögregluaðgerðum í veg fyrir einhverja mannlega iðju getur aldrei táknað að samfélagið eigi þar með að fallast á hana,“ skrifar hann. Og bætir við að þótt tæknilega sé mögulegt að gera eitthvað, verði það ekki þar með sjálfkrafa æskilegt. Þetta er nefnilega siðferðisspurningin sem snýr að okkur sem notum netið, hverju og einu. Ætlum við að stela efni þar bara af því að það er auðvelt og enginn að fylgjast með? Er siðferðilega réttara að stela bók sem bóksalinn hefur sett á borð úti á gangstétt en bók sem er í hillu inni í búð og varin af þjófavarnakerfi? Auðvitað ekki. Löglegum leiðum til að nálgast kvikmyndir, þætti og tónlist á internetinu fer fjölgandi. Við eigum að notfæra okkur þær og standast freistinguna að stela – þótt það sé auðvelt. Og brýna það sama fyrir börnunum okkar, rétt eins og við segjum þeim að það sé rangt að stela úr búðarhillum.