Sniðgöngum hatur, ekki íþróttaleika Ólafur Þ. Stephensen skrifar 21. ágúst 2013 07:00 Nýleg lög í Rússlandi, sem brjóta á réttindum samkynhneigðra, hafa orðið tilefni gagnrýni og mótmæla um allan heim. Þau banna meðal annars að hafa „áróður“ fyrir samböndum samkynhneigðra fyrir börnum. Slíkur „áróður“ getur falizt í því að samkynhneigðir leiðist eða kyssist á almannafæri, að fólk beri tákn mannréttindabaráttu samkynhneigðra, að ekki sé talað um að einhver haldi því fram opinberlega að samkynhneigð sé náttúruleg og eðlileg. Nýju lögin ganga ekki einvörðungu gegn mannréttindasáttmálum sem Rússland á aðild að, heldur líka gegn Ólympíusáttmálanum, sem kveður meðal annars á um bann við hvers konar mismunun gegn íþróttamönnum. Margir hafa látið í ljósi áhyggjur af að lögunum verði beitt gegn samkynhneigðum keppendum og áhorfendum á vetrarólympíuleikunum í Sochi í Rússlandi á næsta ári. Alþjóðaólympíunefndin hefur krafizt tryggingar rússneskra stjórnvalda fyrir því að samkynhneigðir verði látnir í friði og öryggi þeirra tryggt og fengið á móti yfirlýsingar þar um. Þó virðast skiptar skoðanir um málið í rússneska stjórnkerfinu og íþróttamálaráðherrann lét hafa eftir sér að þeir sem brytu lögin yrðu „dregnir til ábyrgðar“. Ýmsir baráttumenn fyrir réttindum samkynhneigðra hafa því hvatt til þess að ríki heims sniðgangi leikana. Í Fréttablaðinu í gær var þannig grein eftir Reyni Þór Eggertsson kennara, þar sem hann hvetur íslenzka íþróttamenn til að sitja heima. Sú áskorun sama efnis sem hefur vakið hvað mesta athygli er opið bréf Stephens Fry, sjónvarpsmanns og rithöfundar, til Alþjóðaólympíunefndarinnar og brezkra stjórnvalda, þar sem hann líkti meðferð rússneskra stjórnvalda á samkynhneigðum við afstöðu þýzkra nazista til gyðinga á tíma Ólympíuleikanna í Berlín 1936 og hvatti Breta til að sniðganga leikana eða Ólympíunefndina til að færa þá annað. Síðan hefur Fry reyndar sagt að líklega sé óraunsætt að leikarnir verði sniðgengnir eða fluttir en hvatt til þess að íþróttamenn og áhorfendur hafi í frammi táknræn mótmæli gegn löggjöfinni. Margir samkynhneigðir íþróttamenn og baráttumenn fyrir mannréttindum, þar á meðal í Rússlandi, eru sömu skoðunar. Að það sé áhrifaríkara að nota þá alþjóðlegu athygli sem leikarnir munu fá til að sýna samstöðu með samkynhneigðum í Rússlandi og réttindabaráttu þeirra. Þá samstöðu er hægt að sýna með ýmsum hætti; til dæmis með því að styðja og hvetja samkynhneigða íþróttamenn alveg sérstaklega til dáða, flagga með stolti baráttutáknum samkynhneigðra í áhorfendaskaranum og síðast en ekki sízt með því að Ólympíunefndir og ríkisstjórnir landa sem senda íþróttamenn á leikana mótmæli löggjöfinni sem mismunar samkynhneigðum og efni til rökræðu við rússnesk stjórnvöld og íþróttahreyfingu um málið. Það er ákaflega ólíklegt að rússnesk stjórnvöld leyfi sér að mæta slíkri friðsamlegri viðleitni með hörku; þvert á móti gæti hún haft jákvæð áhrif á almenningsálitið í Rússlandi. Það er alltaf líklegra til að vinna hugsjónum brautargengi að fólk tali saman en að það útiloki hvað annað. Það á ekki að sniðganga vetrarólympíuleikana; það á að mæta þangað í sönnum Ólympíuanda og sniðganga hatrið og mismununina sem rússnesk stjórnvöld hafa skrifað í lög. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Svartir föstudagar í boði íslenskra stjórnvalda Haukur Guðmundsson Skoðun
Nýleg lög í Rússlandi, sem brjóta á réttindum samkynhneigðra, hafa orðið tilefni gagnrýni og mótmæla um allan heim. Þau banna meðal annars að hafa „áróður“ fyrir samböndum samkynhneigðra fyrir börnum. Slíkur „áróður“ getur falizt í því að samkynhneigðir leiðist eða kyssist á almannafæri, að fólk beri tákn mannréttindabaráttu samkynhneigðra, að ekki sé talað um að einhver haldi því fram opinberlega að samkynhneigð sé náttúruleg og eðlileg. Nýju lögin ganga ekki einvörðungu gegn mannréttindasáttmálum sem Rússland á aðild að, heldur líka gegn Ólympíusáttmálanum, sem kveður meðal annars á um bann við hvers konar mismunun gegn íþróttamönnum. Margir hafa látið í ljósi áhyggjur af að lögunum verði beitt gegn samkynhneigðum keppendum og áhorfendum á vetrarólympíuleikunum í Sochi í Rússlandi á næsta ári. Alþjóðaólympíunefndin hefur krafizt tryggingar rússneskra stjórnvalda fyrir því að samkynhneigðir verði látnir í friði og öryggi þeirra tryggt og fengið á móti yfirlýsingar þar um. Þó virðast skiptar skoðanir um málið í rússneska stjórnkerfinu og íþróttamálaráðherrann lét hafa eftir sér að þeir sem brytu lögin yrðu „dregnir til ábyrgðar“. Ýmsir baráttumenn fyrir réttindum samkynhneigðra hafa því hvatt til þess að ríki heims sniðgangi leikana. Í Fréttablaðinu í gær var þannig grein eftir Reyni Þór Eggertsson kennara, þar sem hann hvetur íslenzka íþróttamenn til að sitja heima. Sú áskorun sama efnis sem hefur vakið hvað mesta athygli er opið bréf Stephens Fry, sjónvarpsmanns og rithöfundar, til Alþjóðaólympíunefndarinnar og brezkra stjórnvalda, þar sem hann líkti meðferð rússneskra stjórnvalda á samkynhneigðum við afstöðu þýzkra nazista til gyðinga á tíma Ólympíuleikanna í Berlín 1936 og hvatti Breta til að sniðganga leikana eða Ólympíunefndina til að færa þá annað. Síðan hefur Fry reyndar sagt að líklega sé óraunsætt að leikarnir verði sniðgengnir eða fluttir en hvatt til þess að íþróttamenn og áhorfendur hafi í frammi táknræn mótmæli gegn löggjöfinni. Margir samkynhneigðir íþróttamenn og baráttumenn fyrir mannréttindum, þar á meðal í Rússlandi, eru sömu skoðunar. Að það sé áhrifaríkara að nota þá alþjóðlegu athygli sem leikarnir munu fá til að sýna samstöðu með samkynhneigðum í Rússlandi og réttindabaráttu þeirra. Þá samstöðu er hægt að sýna með ýmsum hætti; til dæmis með því að styðja og hvetja samkynhneigða íþróttamenn alveg sérstaklega til dáða, flagga með stolti baráttutáknum samkynhneigðra í áhorfendaskaranum og síðast en ekki sízt með því að Ólympíunefndir og ríkisstjórnir landa sem senda íþróttamenn á leikana mótmæli löggjöfinni sem mismunar samkynhneigðum og efni til rökræðu við rússnesk stjórnvöld og íþróttahreyfingu um málið. Það er ákaflega ólíklegt að rússnesk stjórnvöld leyfi sér að mæta slíkri friðsamlegri viðleitni með hörku; þvert á móti gæti hún haft jákvæð áhrif á almenningsálitið í Rússlandi. Það er alltaf líklegra til að vinna hugsjónum brautargengi að fólk tali saman en að það útiloki hvað annað. Það á ekki að sniðganga vetrarólympíuleikana; það á að mæta þangað í sönnum Ólympíuanda og sniðganga hatrið og mismununina sem rússnesk stjórnvöld hafa skrifað í lög.