Illa hönnuð lög? Ólafur Þ. Stephensen skrifar 4. september 2013 00:01 Þessi lög eru ágæt að mörgu leyti en kunna að ganga of langt. Þau eru ekki hönnuð með hagsmuni lífeyrissjóða að leiðarljósi.“ Þessi ummæli Þóreyjar Þórðardóttur, framkvæmdastjóra Landssamtaka lífeyrissjóða, í Fréttablaðinu í gær lýsa dálítið óvæntu skilningsleysi á löggjöfinni um kynjahlutföll í stjórnum fyrirtækja. Þórey var að verja það að sjö lífeyrissjóðir uppfylla ekki skilyrði laganna, sem tóku gildi í byrjun mánaðarins. Hjá fimm sjóðum vantar eina eða tvær konur í stjórn til að uppfylla skilyrði laganna og hjá tveimur vantar karl. Þórey bendir á að í sumum tilvikum sé uppistaða sjóðfélaga af öðru kyninu, eins og til dæmis í Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga. „Það er allt hægt, það er hægt að búa til einhverja fléttulista en þá getur það líka verið þannig að það sé verið að ýta fólki út vegna þess að það er af öðru hvoru kyni. Það eru kostir og gallar í þessu,“ sagði Þórey í Fréttablaðinu og boðaði að Landssamtökin tækju málið upp við nýja ríkisstjórn. Í gær sendu samtökin reyndar frá sér yfirlýsingu og sögðust ekki ætla að beita sér fyrir breytingum á lögunum – sem er skynsamlegri afstaða. Það var alveg deginum ljósara þegar lögin voru sett að þau myndu hafa í för með sér að fólki yrði ýtt út úr stjórnum hlutafélaga eða lífeyrissjóða af því að það væri af öðru hvoru kyninu. Í yfirgnæfandi meirihluta tilvika á það við um karla, af því að þeir voru í yfirgnæfandi meirihluta í stjórnum áður en lögin voru sett. Óhjákvæmilega gat það í örfáum tilvikum þýtt að kona missti stjórnarsæti en á heildina litið jafnast valdahlutföll kynjanna í viðskiptalífinu verulega fyrir tilstilli lagasetningarinnar. Við skulum ekki gleyma af hverju lögin voru sett. Þrátt fyrir hástemmdar heitstrengingar forsvarsmanna fyrirtækja og samtaka þeirra um árabil um að nú ætti að laga hlut kvenna í stjórnum gerðist ekki neitt. Árið áður en lögin voru sett fækkaði konum í stjórnum stærstu fyrirtækja landsins. Fyrirtækin, lífeyrissjóðirnir þar með taldir, gátu sjálfum sér um kennt. Svo gætu býsna margir framámenn í atvinnulífinu sagt eins og Þórey að lögin séu ágæt en bara alls ekki hönnuð með hagsmuni þeirra fyrirtækis eða greinar að leiðarljósi. Stóru fyrirtækin í flutningabransanum gætu til dæmis bent á að þar störfuðu aðallega karlmenn, karlmenn væru yfirgnæfandi í hópi eigenda og stjórnenda, sömuleiðis í forsvari fyrir flesta stærstu kúnnana og löng hefð fyrir því að nánast eingöngu karlar skipuðu stjórnina. Og hætt við að einhver þyrfti að víkja úr stjórn vegna kynferðis síns út af þessum árans kynjakvóta og einhverjum fléttulistum. Eitt af sjónarmiðunum að baki lagasetningunni er að fyrirtækjum þar sem sjónarmið jafnt karla sem kvenna fá vægi við stjórnarborðið sé einfaldlega betur stjórnað en öðrum. Það sýna margvíslegar rannsóknir. Það hlýtur að eiga við um lífeyrissjóðina líka, alveg burtséð frá kynjasamsetningu sjóðfélaganna. Á sínum tíma báðu Landssamtök lífeyrissjóða um að gildistöku laganna yrði frestað um ár en höfðu ekki erindi sem erfiði. Hefði ekki verið sniðugra hjá forsvarsmönnum Lífeyrissjóðanna að segja bara að þeir hefðu ekki náð að uppfylla skilyrði laganna í tíma og ætluðu að vera snöggir að laga það en að bjóða upp á röksemdafærslu sem heldur engum þræði? Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Gagnaver auka hagkvæmni í fjarskiptum Íslands við umheiminn Þorvarður Sveinsson Skoðun 2027 væri hálfkák Ole Anton Bieltvedt Skoðun Hamingjan sem leiðarljós menntakerfisins Reynir Böðvarsson Skoðun Skammtatölvur: Framtíð tölvunarfræði og bylting í útreikningum Sigvaldi Einarsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun
Þessi lög eru ágæt að mörgu leyti en kunna að ganga of langt. Þau eru ekki hönnuð með hagsmuni lífeyrissjóða að leiðarljósi.“ Þessi ummæli Þóreyjar Þórðardóttur, framkvæmdastjóra Landssamtaka lífeyrissjóða, í Fréttablaðinu í gær lýsa dálítið óvæntu skilningsleysi á löggjöfinni um kynjahlutföll í stjórnum fyrirtækja. Þórey var að verja það að sjö lífeyrissjóðir uppfylla ekki skilyrði laganna, sem tóku gildi í byrjun mánaðarins. Hjá fimm sjóðum vantar eina eða tvær konur í stjórn til að uppfylla skilyrði laganna og hjá tveimur vantar karl. Þórey bendir á að í sumum tilvikum sé uppistaða sjóðfélaga af öðru kyninu, eins og til dæmis í Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga. „Það er allt hægt, það er hægt að búa til einhverja fléttulista en þá getur það líka verið þannig að það sé verið að ýta fólki út vegna þess að það er af öðru hvoru kyni. Það eru kostir og gallar í þessu,“ sagði Þórey í Fréttablaðinu og boðaði að Landssamtökin tækju málið upp við nýja ríkisstjórn. Í gær sendu samtökin reyndar frá sér yfirlýsingu og sögðust ekki ætla að beita sér fyrir breytingum á lögunum – sem er skynsamlegri afstaða. Það var alveg deginum ljósara þegar lögin voru sett að þau myndu hafa í för með sér að fólki yrði ýtt út úr stjórnum hlutafélaga eða lífeyrissjóða af því að það væri af öðru hvoru kyninu. Í yfirgnæfandi meirihluta tilvika á það við um karla, af því að þeir voru í yfirgnæfandi meirihluta í stjórnum áður en lögin voru sett. Óhjákvæmilega gat það í örfáum tilvikum þýtt að kona missti stjórnarsæti en á heildina litið jafnast valdahlutföll kynjanna í viðskiptalífinu verulega fyrir tilstilli lagasetningarinnar. Við skulum ekki gleyma af hverju lögin voru sett. Þrátt fyrir hástemmdar heitstrengingar forsvarsmanna fyrirtækja og samtaka þeirra um árabil um að nú ætti að laga hlut kvenna í stjórnum gerðist ekki neitt. Árið áður en lögin voru sett fækkaði konum í stjórnum stærstu fyrirtækja landsins. Fyrirtækin, lífeyrissjóðirnir þar með taldir, gátu sjálfum sér um kennt. Svo gætu býsna margir framámenn í atvinnulífinu sagt eins og Þórey að lögin séu ágæt en bara alls ekki hönnuð með hagsmuni þeirra fyrirtækis eða greinar að leiðarljósi. Stóru fyrirtækin í flutningabransanum gætu til dæmis bent á að þar störfuðu aðallega karlmenn, karlmenn væru yfirgnæfandi í hópi eigenda og stjórnenda, sömuleiðis í forsvari fyrir flesta stærstu kúnnana og löng hefð fyrir því að nánast eingöngu karlar skipuðu stjórnina. Og hætt við að einhver þyrfti að víkja úr stjórn vegna kynferðis síns út af þessum árans kynjakvóta og einhverjum fléttulistum. Eitt af sjónarmiðunum að baki lagasetningunni er að fyrirtækjum þar sem sjónarmið jafnt karla sem kvenna fá vægi við stjórnarborðið sé einfaldlega betur stjórnað en öðrum. Það sýna margvíslegar rannsóknir. Það hlýtur að eiga við um lífeyrissjóðina líka, alveg burtséð frá kynjasamsetningu sjóðfélaganna. Á sínum tíma báðu Landssamtök lífeyrissjóða um að gildistöku laganna yrði frestað um ár en höfðu ekki erindi sem erfiði. Hefði ekki verið sniðugra hjá forsvarsmönnum Lífeyrissjóðanna að segja bara að þeir hefðu ekki náð að uppfylla skilyrði laganna í tíma og ætluðu að vera snöggir að laga það en að bjóða upp á röksemdafærslu sem heldur engum þræði?