Andstæður í einni sæng Þorsteinn Pálsson skrifar 14. september 2013 07:00 Umræðan á Alþingi í vikunni um störf ríkisstjórnarinnar varpaði ágætu ljósi á andstæðurnar í pólitíkinni. Þær sýndu að málefnalegar andstæður skiptast ekki í einu og öllu eftir sömu línu og völdin milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Slíkt misgengi í pólitískri spennu er ekki nýtt af nálinni í umhverfi samsteypustjórna; en sýnist vera um sumt dýpra en oft áður. Stærsta verkefni ríkisstjórnarinnar og mesta hagsmunamál almennings er að ná jöfnuði í rekstri ríkissjóðs og losa hann undan níutíu milljarða króna vaxtabyrði sem er að kyrkja heilbrigðiskerfið. Lausn á þessum vanda er forsenda þess að árangur náist á öðrum sviðum. Fjármálaráðherra gerði mönnum á afar ábyrgan hátt grein fyrir að þetta væri forgangsverkefnið og varaði réttilega við óraunhæfum væntingum. Forsætisráðherrann boðaði á hinn bóginn að forgangsverkefnið væri að endurgreiða öllum þeim sem skulda húsnæðislán verðbólguáföll liðinna ára með róttækustu aðgerð sem sögur fara af í víðri veröld. Þetta er ekki hægt að gera nema byrja á því að fara í öfuga átt við þá sem sett hafa jöfnuð í ríkisfjármálum og aðhald í peningamálum sem fyrsta markmið á langri leið til endurreisnar. Það sem gerðist eftir kosningar var að pólarnir, sem togast á um ábyrga og óábyrga stefnu í fjármálum og peningamálum, gengu í eina sæng. Þetta þarf ekki að þýða að brotalamir séu í ríkisstjórnarsamstarfinu. Límið í því er forskrift forseta Íslands um að kæfa alla umræðu um dýpra og ríkara samstarf í peninga- og viðskiptamálum við Evrópu og Bandaríkin. Það versta sem kæmi fyrir þessa stjórn væri að límið yrði mikilvægara en efnahagsmarkmiðin og endurreisnin. Það urðu örlög vinstri stjórnarinnar.Stjórnarandstaðan vegur salt Opnunarumræðan á Alþingi sýndi líka að engin leið er að glöggva sig á því hvoru megin hryggjar stjórnarandstaðan liggur. Hún virðist einfaldlega vega salt milli þeirra gagnstæðu krafta sem togast á í stjórnarsamstarfinu um ábyrga og óábyrga fjármála- og peningamálastjórn. Vinstri stjórnin fór ágætlega af stað á þessu sviði og fylgdi þar þeirri áætlun sem ríkisstjórn Geirs Haarde hafði gert með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Hún stóð því fyrir mestu íhaldsúrræðum sem sögur fara af í ríkisfjármálum. Það var lofsvert. En einurðin stóð ekki nógu lengi. Eftir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fór var slakað á. Áætlun um jöfnuð var frestað. Á lokasprettinum tók vinstri stjórnin auk þess margvíslegar ákvarðanir um útgjöld sem ekki voru fjármögnuð. Í kaupbæti ákvað hún að verja auðlindatekjum og óorðnum hagnaði af sölu eigna í bönkunum til ýmissa verkefna en ekki niðurgreiðslu á ríkisskuldum. Það var algjörlega ósamrýmanlegt ábyrgri fjármálastefnu. Vinstri stjórnin skaut sér einnig undan því að takast á við yfirvofandi gjaldþrot B-deildar lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna. Ábyrg fjármálastjórn kallar því á að þegar á næsta ári verði verulegum fjárhæðum varið til að aftengja þá tímasprengju. Þetta fráhvarf frá þeirri ábyrgð sem einkenndi fjármálastjórnina í byrjun síðasta kjörtímabils gerir róður nýju stjórnarinnar að sama skapi þyngri. Það er einfaldlega rétt sem fjármálaráðherra benti á að velferðarkerfið losnar ekki úr fjárhagslegri bóndabeygju fyrr en búið er að eyða ógnarháum vaxtagjöldum ríkissjóðs.Heimsins mesta loforð Engin ástæða er til að efast um að snoturt hjartalag og skörp útsjónarsemi í bókhaldslegum tilfærslum búi að baki heimsins stærsta loforði. En verði stofnaður sjóður í þessum tilgangi með seðlaprentun borgar almenningur brúsann eftir leiðum verðbólgunnar. Einnig hefur verið látið að því liggja að ríkissjóður fái með einhverjum hætti ráðstöfunarrétt yfir nokkrum hluta af bókfærðum eignum kröfuhafa gömlu bankanna í íslenskum krónum. Í því samhengi þarf fyrst að skoða hvort þær eignir eru bókhaldsfroða eða raunveruleiki. Ef þær eru raunverulegar vaknar aftur sú spurning hvernig á að ráðstafa þeim með ábyrgum hætti. Það er verið að tala um sameign íslensku þjóðarinnar. Öll önnur ráðstöfun slíkra eigna en að greiða niður sameiginlegar skuldir skattgreiðenda í ríkissjóði væri óábyrg og ósanngjörn. Hún væri efnahagslega óskynsamleg og siðferðilega óverjandi. Kaldi veruleikinn er sá að Ísland sem skuldsett þjóð hefur síður en skuldminni þjóðir efni á að endurgreiða verðbólgu aftur í tímann; hvað þá heldur að setja heimsmet í þeim efnum. Loforðið felur því í sér ríkara ábyrgðarleysi en vinstri stjórnin sýndi undir lokin. Þessi málefnalega spenna milli ábyrgðar og ábyrgðarleysis snertir sjálfan tilgang Sjálfstæðisflokksins. Það væri mikill skaði ef hann yrði óskýr um þessi efni. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorsteinn Pálsson Mest lesið Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Ég var barnið sem vildi ekki taka í höndina á kennaranum sínum Fida Abu Libdeh Skoðun Örvæntingarfullur maður sker út grasker Þórður Snær Júlíusson Skoðun Sjálfstæðisflokkur hækkar kostnað heimilanna Kristrún Frostadóttir Skoðun Gerum þetta að kosningamáli Ágúst Ólafur Ágústsson Skoðun Ölmusuhagkerfið Unnur Rán Reynisdóttir Skoðun Eru vaxtarmörkin vandinn? Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun Hver ætlar að taka fimmtu vaktina? Ákall til stjórnmálaflokka María Fjóla Harðardóttir,Halla Thoroddsen Skoðun Stóri grænþvotturinn Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun Búum til „vandamál“ – leysum það með samræmdum prófum Árelía Eydís Guðmundsdóttir Skoðun
Umræðan á Alþingi í vikunni um störf ríkisstjórnarinnar varpaði ágætu ljósi á andstæðurnar í pólitíkinni. Þær sýndu að málefnalegar andstæður skiptast ekki í einu og öllu eftir sömu línu og völdin milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Slíkt misgengi í pólitískri spennu er ekki nýtt af nálinni í umhverfi samsteypustjórna; en sýnist vera um sumt dýpra en oft áður. Stærsta verkefni ríkisstjórnarinnar og mesta hagsmunamál almennings er að ná jöfnuði í rekstri ríkissjóðs og losa hann undan níutíu milljarða króna vaxtabyrði sem er að kyrkja heilbrigðiskerfið. Lausn á þessum vanda er forsenda þess að árangur náist á öðrum sviðum. Fjármálaráðherra gerði mönnum á afar ábyrgan hátt grein fyrir að þetta væri forgangsverkefnið og varaði réttilega við óraunhæfum væntingum. Forsætisráðherrann boðaði á hinn bóginn að forgangsverkefnið væri að endurgreiða öllum þeim sem skulda húsnæðislán verðbólguáföll liðinna ára með róttækustu aðgerð sem sögur fara af í víðri veröld. Þetta er ekki hægt að gera nema byrja á því að fara í öfuga átt við þá sem sett hafa jöfnuð í ríkisfjármálum og aðhald í peningamálum sem fyrsta markmið á langri leið til endurreisnar. Það sem gerðist eftir kosningar var að pólarnir, sem togast á um ábyrga og óábyrga stefnu í fjármálum og peningamálum, gengu í eina sæng. Þetta þarf ekki að þýða að brotalamir séu í ríkisstjórnarsamstarfinu. Límið í því er forskrift forseta Íslands um að kæfa alla umræðu um dýpra og ríkara samstarf í peninga- og viðskiptamálum við Evrópu og Bandaríkin. Það versta sem kæmi fyrir þessa stjórn væri að límið yrði mikilvægara en efnahagsmarkmiðin og endurreisnin. Það urðu örlög vinstri stjórnarinnar.Stjórnarandstaðan vegur salt Opnunarumræðan á Alþingi sýndi líka að engin leið er að glöggva sig á því hvoru megin hryggjar stjórnarandstaðan liggur. Hún virðist einfaldlega vega salt milli þeirra gagnstæðu krafta sem togast á í stjórnarsamstarfinu um ábyrga og óábyrga fjármála- og peningamálastjórn. Vinstri stjórnin fór ágætlega af stað á þessu sviði og fylgdi þar þeirri áætlun sem ríkisstjórn Geirs Haarde hafði gert með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Hún stóð því fyrir mestu íhaldsúrræðum sem sögur fara af í ríkisfjármálum. Það var lofsvert. En einurðin stóð ekki nógu lengi. Eftir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fór var slakað á. Áætlun um jöfnuð var frestað. Á lokasprettinum tók vinstri stjórnin auk þess margvíslegar ákvarðanir um útgjöld sem ekki voru fjármögnuð. Í kaupbæti ákvað hún að verja auðlindatekjum og óorðnum hagnaði af sölu eigna í bönkunum til ýmissa verkefna en ekki niðurgreiðslu á ríkisskuldum. Það var algjörlega ósamrýmanlegt ábyrgri fjármálastefnu. Vinstri stjórnin skaut sér einnig undan því að takast á við yfirvofandi gjaldþrot B-deildar lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna. Ábyrg fjármálastjórn kallar því á að þegar á næsta ári verði verulegum fjárhæðum varið til að aftengja þá tímasprengju. Þetta fráhvarf frá þeirri ábyrgð sem einkenndi fjármálastjórnina í byrjun síðasta kjörtímabils gerir róður nýju stjórnarinnar að sama skapi þyngri. Það er einfaldlega rétt sem fjármálaráðherra benti á að velferðarkerfið losnar ekki úr fjárhagslegri bóndabeygju fyrr en búið er að eyða ógnarháum vaxtagjöldum ríkissjóðs.Heimsins mesta loforð Engin ástæða er til að efast um að snoturt hjartalag og skörp útsjónarsemi í bókhaldslegum tilfærslum búi að baki heimsins stærsta loforði. En verði stofnaður sjóður í þessum tilgangi með seðlaprentun borgar almenningur brúsann eftir leiðum verðbólgunnar. Einnig hefur verið látið að því liggja að ríkissjóður fái með einhverjum hætti ráðstöfunarrétt yfir nokkrum hluta af bókfærðum eignum kröfuhafa gömlu bankanna í íslenskum krónum. Í því samhengi þarf fyrst að skoða hvort þær eignir eru bókhaldsfroða eða raunveruleiki. Ef þær eru raunverulegar vaknar aftur sú spurning hvernig á að ráðstafa þeim með ábyrgum hætti. Það er verið að tala um sameign íslensku þjóðarinnar. Öll önnur ráðstöfun slíkra eigna en að greiða niður sameiginlegar skuldir skattgreiðenda í ríkissjóði væri óábyrg og ósanngjörn. Hún væri efnahagslega óskynsamleg og siðferðilega óverjandi. Kaldi veruleikinn er sá að Ísland sem skuldsett þjóð hefur síður en skuldminni þjóðir efni á að endurgreiða verðbólgu aftur í tímann; hvað þá heldur að setja heimsmet í þeim efnum. Loforðið felur því í sér ríkara ábyrgðarleysi en vinstri stjórnin sýndi undir lokin. Þessi málefnalega spenna milli ábyrgðar og ábyrgðarleysis snertir sjálfan tilgang Sjálfstæðisflokksins. Það væri mikill skaði ef hann yrði óskýr um þessi efni.
Hver ætlar að taka fimmtu vaktina? Ákall til stjórnmálaflokka María Fjóla Harðardóttir,Halla Thoroddsen Skoðun
Hver ætlar að taka fimmtu vaktina? Ákall til stjórnmálaflokka María Fjóla Harðardóttir,Halla Thoroddsen Skoðun