Þekking á flótta Ólafur Þ. Stephensen skrifar 26. september 2013 07:00 Hver er undirstaða velferðar og velgengni íslenzku þjóðarinnar í framtíðinni? Að sjálfsögðu menntun þjóðarinnar og þekking, sem mun bæði skapa velferð og verðmæti. Mannauðurinn er ótakmörkuð auðlind og ætti með réttu að standa undir hagvexti í framtíðinni. Náttúruauðlindirnar okkar eru dýrmætar, en þær eru takmarkaðar og við munum ekki ná mikið meiru út úr þeim með hefðbundinni nýtingu. Með þekkingu og rannsóknum má hins vegar nýta þær betur, hvort sem við horfum til orkunnar, fiskstofnanna, náttúruperlanna eða ræktarlandsins. Samt er það svo að á Íslandi nútímans tekst ekki að skapa þær aðstæður að þekkingin sæki inn í landið. Þvert á móti virðist dýrmætasta þekkingin á hröðum landflótta. Þetta er áberandi í heilbrigðiskerfinu, þar sem starfsfólk með dýrmæta þekkingu er eftirsótt á alþjóðlegum vinnumarkaði og kýs að fara snemma til framhaldsnáms í útlöndum eða koma ekki heim úr slíku námi vegna óviðunandi kjara og starfsaðstæðna hér heima. Fyrr í vikunni var sagt frá könnun meðal nemenda í heilbrigðisgreinum við Háskóla Íslands. Aðeins 13 prósent þeirra sáu Landspítalann, stærsta þekkingarfyrirtæki landsins, fyrir sér sem framtíðarvinnustað sinn. Vísindarannsóknir á Íslandi eru fjársveltar. Í gær skrifuðu fjórtán kennarar við stærstu háskóla landsins grein í Fréttablaðið, þar sem þeir lýstu áhyggjum af því að hugsanlega yrði engum nýjum styrkjum úthlutað úr Rannsóknasjóði Rannís á næsta ári og þarnæsta. Vísindamennirnir segja að þá sé fjöldi rannsóknarhópa í hættu. Það muni bitna sérstaklega á ungu vísindafólki sem sé að hasla sér völl við rannsóknir og geti ekki beðið í tvö ár eftir að sjóðurinn rétti úr kútnum. Hvað er líklegast að verði um þetta fólk? Jú, auðvitað að það snúi aftur til útlanda þar sem eftirspurn er eftir starfskröftum þess og vísindarannsóknir fjármagnaðar með styrkjum úr öflugum samkeppnissjóðum. Framlag þess nýtist þá til framfara og atvinnuuppbyggingar í einhverjum öðrum löndum. Markaðurinn, fylgirit Fréttablaðsins um viðskipti, sagði líka frá því í gær að Samtök iðnaðarins hefðu miklar áhyggjur af því að þekkingar- og tæknifyrirtæki flýðu úr landi. Undanfarin ár hafa sex slík flutt burt eða hætt starfsemi, sjö verið seld eða flutt höfuðstöðvarnar til útlanda og hluti stjórnendateymis fimm til viðbótar flutt úr landi. Lykilfólk sem hefur lagt mikið til þróunar hátækniiðnaðar á Íslandi býr nú annars staðar. Gjaldeyrishöftin eru helzti áhrifavaldurinn um þessa þróun. Flest fyrirtækin hafa þó haldið áfram þróunarstarfi hér á landi og Davíð Lúðvíksson, forstöðumaður hjá SI, segir að þróunarumhverfið hér á landi sé að mörgu leyti gott. Land, sem þarf að byggja upp eftir hrun, má ekki við því að missa færustu vísindamennina og efnilegustu sprotafyrirtækin úr landi. Hvernig er hægt að vinna á móti þeirri þróun? Til dæmis með því að forgangsraða í þágu vaxandi greina og skera frekar niður óhagkvæma styrki til staðnaðra frumframleiðsluatvinnugreina. Með því að efla samkeppnissjóði sem styrkja vísindarannsóknir en draga úr fjárveitingum beint til stofnana eftir atvinnugreina- eða byggðapólitískum sjónarmiðum. Með því að viðurkenna að hæfasta fólkið með dýrmætustu þekkinguna er hreyfanlegast og eftirsóttast á alþjóðavettvangi. Og með því að setja fram trúverðugt plan um afnám gjaldeyrishaftanna. Þetta væri alltént góð byrjun. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Krónan eða evran? Kostir og gallar Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun
Hver er undirstaða velferðar og velgengni íslenzku þjóðarinnar í framtíðinni? Að sjálfsögðu menntun þjóðarinnar og þekking, sem mun bæði skapa velferð og verðmæti. Mannauðurinn er ótakmörkuð auðlind og ætti með réttu að standa undir hagvexti í framtíðinni. Náttúruauðlindirnar okkar eru dýrmætar, en þær eru takmarkaðar og við munum ekki ná mikið meiru út úr þeim með hefðbundinni nýtingu. Með þekkingu og rannsóknum má hins vegar nýta þær betur, hvort sem við horfum til orkunnar, fiskstofnanna, náttúruperlanna eða ræktarlandsins. Samt er það svo að á Íslandi nútímans tekst ekki að skapa þær aðstæður að þekkingin sæki inn í landið. Þvert á móti virðist dýrmætasta þekkingin á hröðum landflótta. Þetta er áberandi í heilbrigðiskerfinu, þar sem starfsfólk með dýrmæta þekkingu er eftirsótt á alþjóðlegum vinnumarkaði og kýs að fara snemma til framhaldsnáms í útlöndum eða koma ekki heim úr slíku námi vegna óviðunandi kjara og starfsaðstæðna hér heima. Fyrr í vikunni var sagt frá könnun meðal nemenda í heilbrigðisgreinum við Háskóla Íslands. Aðeins 13 prósent þeirra sáu Landspítalann, stærsta þekkingarfyrirtæki landsins, fyrir sér sem framtíðarvinnustað sinn. Vísindarannsóknir á Íslandi eru fjársveltar. Í gær skrifuðu fjórtán kennarar við stærstu háskóla landsins grein í Fréttablaðið, þar sem þeir lýstu áhyggjum af því að hugsanlega yrði engum nýjum styrkjum úthlutað úr Rannsóknasjóði Rannís á næsta ári og þarnæsta. Vísindamennirnir segja að þá sé fjöldi rannsóknarhópa í hættu. Það muni bitna sérstaklega á ungu vísindafólki sem sé að hasla sér völl við rannsóknir og geti ekki beðið í tvö ár eftir að sjóðurinn rétti úr kútnum. Hvað er líklegast að verði um þetta fólk? Jú, auðvitað að það snúi aftur til útlanda þar sem eftirspurn er eftir starfskröftum þess og vísindarannsóknir fjármagnaðar með styrkjum úr öflugum samkeppnissjóðum. Framlag þess nýtist þá til framfara og atvinnuuppbyggingar í einhverjum öðrum löndum. Markaðurinn, fylgirit Fréttablaðsins um viðskipti, sagði líka frá því í gær að Samtök iðnaðarins hefðu miklar áhyggjur af því að þekkingar- og tæknifyrirtæki flýðu úr landi. Undanfarin ár hafa sex slík flutt burt eða hætt starfsemi, sjö verið seld eða flutt höfuðstöðvarnar til útlanda og hluti stjórnendateymis fimm til viðbótar flutt úr landi. Lykilfólk sem hefur lagt mikið til þróunar hátækniiðnaðar á Íslandi býr nú annars staðar. Gjaldeyrishöftin eru helzti áhrifavaldurinn um þessa þróun. Flest fyrirtækin hafa þó haldið áfram þróunarstarfi hér á landi og Davíð Lúðvíksson, forstöðumaður hjá SI, segir að þróunarumhverfið hér á landi sé að mörgu leyti gott. Land, sem þarf að byggja upp eftir hrun, má ekki við því að missa færustu vísindamennina og efnilegustu sprotafyrirtækin úr landi. Hvernig er hægt að vinna á móti þeirri þróun? Til dæmis með því að forgangsraða í þágu vaxandi greina og skera frekar niður óhagkvæma styrki til staðnaðra frumframleiðsluatvinnugreina. Með því að efla samkeppnissjóði sem styrkja vísindarannsóknir en draga úr fjárveitingum beint til stofnana eftir atvinnugreina- eða byggðapólitískum sjónarmiðum. Með því að viðurkenna að hæfasta fólkið með dýrmætustu þekkinguna er hreyfanlegast og eftirsóttast á alþjóðavettvangi. Og með því að setja fram trúverðugt plan um afnám gjaldeyrishaftanna. Þetta væri alltént góð byrjun.