Menning

Best í heimi í Útvarpsleikhúsinu

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
María Reyndal leikstýrir og gerði leikgerð upp úr verki sínu, Hávars Sigurjónssonar og leikhópsins.
María Reyndal leikstýrir og gerði leikgerð upp úr verki sínu, Hávars Sigurjónssonar og leikhópsins. Fréttablaðið/Vilhelm
Fyrsta nýja íslenska leikritið af tíu sem Útvarpsleikhúsið flytur í vetur verður frumflutt á sunnudaginn klukkan 13. Það er verkið Best í heimi, útvarpsleikgerð Maríu Reyndal eftir leikriti Hávars Sigurjónssonar, Maríu Reyndal og leikhópsins Rauða þráðarins frá 2006. María er jafnframt leikstjóri verksins eins og á sviðinu um árið.



Það virðist vera orðin lenska að leikrit stökkvi á milli miðla, byrji ýmist sem útvarpsleikrit og endi á sviði eða öfugt. Hvað veldur?

„Það er gaman að nýta sér muninn á þessum miðlum og útvarpsverkið er talsvert ólíkt því sem við gerðum á sviði,“ segir María. „Við náum fram öðrum tengingum við hlustandann. Það er til dæmis hægt að fara í hraðari skiptingar, þarf ekki að skipta út leikmynd, ljósum og öllu. Útvarpsverkið er töluvert ólíkt sviðsverkinu, sagan af Kim og Rögnu tengdamóður hennar er hér fyrirferðarmeiri.“



Leikritið var upphaflega samið af Hávari, Maríu og fjórum leikurum af erlendu bergi sem léku það á sviðinu, eru þau öll með í þessari útgáfu?

„Já, og fleiri til.“ Og þau tala öll íslensku? „Nei, og gerðu það alls ekki þegar þau stóðu á sviði í einn og hálfan tíma og fóru með texta á íslensku. Það tókst hins vegar mjög vel og í útvarpsverkinu eru enn fleiri sem ekki tala íslensku en lærðu textann auðveldlega, enda hafa þau sjálf mótað rullurnar að miklu leyti og þurfa bara hjálp við þýðinguna.“

Allar sögurnar í Best í heimi eiga sér fyrirmyndir í raunverulegum upplifunum. „Já, við deildum sögum okkar og annarra. Þótt ég sé Íslendingur hef ég búið mikið í útlöndum og þekki það að vera innflytjandi. Kannast við vandamálin sem því fylgja og hef mikinn áhuga á innflytjendamálum á Íslandi.“



Útsendingin hefst eins og áður sagði klukkan 13 á sunnudaginn og María hvetur fólk til að koma sér vel fyrir og virkilega hlusta. „Þótt fólki finnist þetta kannski fyndið í fyrstu þá fer aðalsagan á dýpri mið þegar líður á verkið.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×