Menning

Magnús Karel og Inga Lára hlutu menningarviðurkenningu Árborgar

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Inga Lára Baldvinsdóttir og Magnús Karel Hannesson hlutu menningarviðurkenningu Árborgar í ár.
Inga Lára Baldvinsdóttir og Magnús Karel Hannesson hlutu menningarviðurkenningu Árborgar í ár.

Hjónin Inga Lára Baldvinsdóttir og Magnús Karel Hannesson hlutu menningarviðurkenningu Árborgar árið 2025. Þau hafa eflt menningarlíf Eyrarbakka síðustu áratugi með ljósmyndasýningum, sögugöngum, bókaútgáfu og rekstri Laugabúðar.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef sveitarfélagsins Árborgar.

Viðurkenningin var veitt við hátíðlega athöfn í Varðveisluhúsi Byggðasafns Árnesinga á sunnudag í kjölfarið á fyrirlestri þeirra hjóna um nýútkomna bók þeirra um horfin hús á Eyrarbakka, rannsóknarvinunni og niðurstöðum hennar.

Bragi Bjarnason, bæjarstjóri, Inga Lára Baldvinsdóttir, Magnús Karel Hannesson og Hera Fjölnisdóttir frá Menningar- og upplýsingadeild Árborgar.

„Inga Lára og Magnús eru vel að þessum heiðri komin enda hafa þau á undanförnum áratugum auðgað menningarlíf í sveitarfélaginu svo sómi er að. Má hér nefna ljósmyndasýningar, sögugöngur, bókaútgáfu og síðast en ekki síst Laugabúð, og er þó alls ekki allt upp talið,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að það hafi verið einróma ákvörðun bæjarráðs Árborgar að veita hjónunum viðurkenninguna og þakka þeim um leið fyrir þeirra ómetanlega menningarstarf í þágu samfélagsins.

Það var fullt hús á fyrirlestrinum.

Hjónin hafa bæði sinnt ýmsum störfum á vegum Árborgar og Eyrarbakkahrepps, endurreist og rekið verslunina Laugabúð, haldið ljósmyndasýningar og gefið út bækurnar Margur í sandinn hér markaði slóð: Eyrarbakkahreppur 1897-1998, Frystihúsið: ljósmyndir 1976-1978 og Eyrarbakki: byggð í mótun - horfin hús 1878-1960.

Verðlaunagripurinn var handtálguð heiðlóa eftir myndlistarmanninn Hafþór Ragnar Þórhallsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.