Menning

Undrabarn leikur með Moscow Virtuosi í Hörpu

Daniel Kharitonov hefur sópað til sín verðlaunum í alþjóðlegum píanókeppnum víða um lönd undanfarin ár.
Daniel Kharitonov hefur sópað til sín verðlaunum í alþjóðlegum píanókeppnum víða um lönd undanfarin ár.
Hljómsveitin Moscow Virtuosi heldur tónleika í Hörpu annað kvöld. Einleikari er hinn 15 ára gamli píanóleikari Daniel Kharitonov.

Hljómsveitin Moscow Virtuosi var stofnuð árið 1979 af Vladimir Spivakov, fiðluleikara og hljómsveitarstjóra. Meðlimir hennar eru flestir sigurvegarar alþjóðlegra tónlistarkeppna og hljómsveitin ein virtasta hljómsveit sinnar tegundar. Eins og nafnið ber með sér eru tónlistarmennirnir allir einleikarar og hafa átt farsælan feril sem slíkir. Á hverju ári heldur hljómsveitin um 100 tónleika víða um lönd í öllum helstu tónleikasölum heims, en hún hefur aldrei áður komið fram á Íslandi. Frá stofnun hefur hljómsveitinni verið stjórnað af Vladimir Spivakov sem sjálfur er einn fremsti fiðluleikari heims.

Einleikari á píanó á tónleikunum í Hörpu er hinn 15 ára gamli Daniel Kharitonov sem kallaður hefur verið undrabarn. Hann hóf píanónám fimm ára og sex ára gamall fékk hann inngöngu í Moskvu Konservatoríið og hefur stundað þar nám síðan 2009 hjá Valery Piassetski. Frá árinu 2006 hefur hann sópað að sér verðlaunum í píanókeppnum víða um lönd en hann hefur tekið þátt í átta alþjóðlegum píanókeppnum í Rússlandi, Þýskalandi, Frakklandi og Tyrklandi og kom fram á Ólympíuleikunum í St. Pétursborg árið 2012. Þetta mun vera í fyrsta sinn sem hann kemur fram á Íslandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×