Borað og borgað Ólafur Stephensen skrifar 8. október 2013 07:00 Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram vilji ríkisstjórnarinnar til að einkaaðilar taki þátt í samgöngubótum hér á landi á næstu árum. Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að Vegagerðinni hefði verið falið að skoða hvaða verkefni væru fýsileg í vegamálum. Jafnframt kæmi til greina að einkaaðilar tækju þátt í uppbyggingu hafna og flugvalla. Við núverandi aðstæður, þar sem ríkissjóður er í mjög þröngri stöðu, er fullkomlega eðlilegt að skoða möguleika á að fá nýja peninga inn í samgönguframkvæmdir með nýjum aðferðum. Það hlýtur líka í rauninni að vera skilyrði þess að byggja samgöngumannvirki í einkaframkvæmd að það séu raunverulega einkaaðilar sem fjármagna verkin og taka áhættuna en skattgreiðendur borgi ekki brúsann á endanum. Þetta á aðeins við um eina samgönguframkvæmd hér á landi til þessa; Hvalfjarðargöngin. Þar var áhætta ríkisins af framkvæmdinni lítil og notendur ganganna greiða síðan sjálfir kostnaðinn. Þegar göngin eru að fullu greidd eignast ríkið þau. Vaðlaheiðargöngin eru sögð gerð í einkaframkvæmd. Það er blekking af því að skattgreiðendur lána fyrirtækinu peninga sem óvíst er að fáist til baka vegna hæpinna forsendna um meðal annars umferðarþróun og lánskjör. Vonandi er ríkisstjórnin ekki með hugmyndir um fleiri slíkar „einkaframkvæmdir“. Hvað hafnir og flugvelli varðar hlýtur einkarekstur að koma vel til greina í ýmsum tilvikum. Til dæmis má vel hugsa sér að einkafyrirtæki reki Leifsstöð og beri fjárhagslega áhættu af nauðsynlegri stækkun hennar til að anna stóraukinni umferð – en njóti jafnframt ávinningsins ef því tekst að skapa nægilegar tekjur af viðskiptum flugfélaga og verzlun ferðamanna. Innanríkisráðherrann nefnir að einkafyrirtæki hafi áhuga á hafnarframkvæmdum í tengslum við auknar siglingar um norðurslóðir. Það væri raunar fráleitt að skattgreiðendur legðu fé til slíkra framkvæmda vegna þeirrar áhættu sem þær fela í sér, en sjálfsagt að einkaaðilar hætti peningunum sínum. Í vegamálunum segir ráðherrann það skilyrði að íbúar og vegfarendur eigi kost á annarri leið – eins og á við í Hvalfirðinum. Þetta liggur út af fyrir sig í augum uppi. Það eru hins vegar ekki óskaplega margir samgöngukostir sem þetta ætti við um. Eigi að vera nægileg umferð um vegina og göngin til að notendagjöld standi undir þeim, þyrftu þessar framkvæmdir flestar að vera á Suðvesturlandi, þar sem umferðin er þéttust. Sundabraut gæti verið slík samgöngubót, enda hefur áður verið skoðað hvort hún gæti farið í einkaframkvæmd. Þá geta menn sagt sem svo að lítið réttlæti sé í því að láta höfuðborgarbúa borga fyrir þessa hagkvæmu samgöngubót en rukka engan fyrir afnot af mun óhagkvæmari framkvæmdum eins og jarðgöngunum sem boruð eru í gegnum fjöll víða um land. Á móti kemur að valdahlutföllin á Alþingi eru enn þá þannig að framkvæmdirnar úti um land eru mun líklegri til að fá fjárveitingu en samgöngubætur á suðvesturhorninu. Á næstu árum er ekki víst að höfuðborgarbúar fái samgöngubót eins og Sundabraut nema borga sjálfir fyrir að nota hana. Sennilega hefðu Hvalfjarðargöngin enn ekki verið boruð nema af því að það var gert í einkaframkvæmd og notendur borga. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Heilbrigðiskerfið logar og er að hrynja: Þú áttir betra skilið Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Grasker mannréttinda á degi hinna framliðnu Anna Kristín Jensdóttir Skoðun Treystir þú konum? Hópur 72 kvenna úr sex stjórnmálaflokkum Skoðun Fræðsluskylda í stað skólaskyldu Eldur Smári Kristinsson Skoðun Græðgin er komin út fyrir öll mörk Sigurjón Þórðarson Skoðun Ummæli borgarstjóra og óbragð í munni Kristín Björnsdóttir Skoðun Að vera ung kona á Íslandi árið 2024 Eden Ósk Eyjólfsdóttir Skoðun Hvaða aukna aðgengi, Willum Þór? Trausti Breiðfjörð Magnússon Skoðun Ungt fólk er að missa trúna á stjórnmálum – og um leið á framtíðinni París Anna Bergmann Skoðun Þetta lítur ekki vel út Jón Ingi Hákonarson Skoðun
Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram vilji ríkisstjórnarinnar til að einkaaðilar taki þátt í samgöngubótum hér á landi á næstu árum. Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að Vegagerðinni hefði verið falið að skoða hvaða verkefni væru fýsileg í vegamálum. Jafnframt kæmi til greina að einkaaðilar tækju þátt í uppbyggingu hafna og flugvalla. Við núverandi aðstæður, þar sem ríkissjóður er í mjög þröngri stöðu, er fullkomlega eðlilegt að skoða möguleika á að fá nýja peninga inn í samgönguframkvæmdir með nýjum aðferðum. Það hlýtur líka í rauninni að vera skilyrði þess að byggja samgöngumannvirki í einkaframkvæmd að það séu raunverulega einkaaðilar sem fjármagna verkin og taka áhættuna en skattgreiðendur borgi ekki brúsann á endanum. Þetta á aðeins við um eina samgönguframkvæmd hér á landi til þessa; Hvalfjarðargöngin. Þar var áhætta ríkisins af framkvæmdinni lítil og notendur ganganna greiða síðan sjálfir kostnaðinn. Þegar göngin eru að fullu greidd eignast ríkið þau. Vaðlaheiðargöngin eru sögð gerð í einkaframkvæmd. Það er blekking af því að skattgreiðendur lána fyrirtækinu peninga sem óvíst er að fáist til baka vegna hæpinna forsendna um meðal annars umferðarþróun og lánskjör. Vonandi er ríkisstjórnin ekki með hugmyndir um fleiri slíkar „einkaframkvæmdir“. Hvað hafnir og flugvelli varðar hlýtur einkarekstur að koma vel til greina í ýmsum tilvikum. Til dæmis má vel hugsa sér að einkafyrirtæki reki Leifsstöð og beri fjárhagslega áhættu af nauðsynlegri stækkun hennar til að anna stóraukinni umferð – en njóti jafnframt ávinningsins ef því tekst að skapa nægilegar tekjur af viðskiptum flugfélaga og verzlun ferðamanna. Innanríkisráðherrann nefnir að einkafyrirtæki hafi áhuga á hafnarframkvæmdum í tengslum við auknar siglingar um norðurslóðir. Það væri raunar fráleitt að skattgreiðendur legðu fé til slíkra framkvæmda vegna þeirrar áhættu sem þær fela í sér, en sjálfsagt að einkaaðilar hætti peningunum sínum. Í vegamálunum segir ráðherrann það skilyrði að íbúar og vegfarendur eigi kost á annarri leið – eins og á við í Hvalfirðinum. Þetta liggur út af fyrir sig í augum uppi. Það eru hins vegar ekki óskaplega margir samgöngukostir sem þetta ætti við um. Eigi að vera nægileg umferð um vegina og göngin til að notendagjöld standi undir þeim, þyrftu þessar framkvæmdir flestar að vera á Suðvesturlandi, þar sem umferðin er þéttust. Sundabraut gæti verið slík samgöngubót, enda hefur áður verið skoðað hvort hún gæti farið í einkaframkvæmd. Þá geta menn sagt sem svo að lítið réttlæti sé í því að láta höfuðborgarbúa borga fyrir þessa hagkvæmu samgöngubót en rukka engan fyrir afnot af mun óhagkvæmari framkvæmdum eins og jarðgöngunum sem boruð eru í gegnum fjöll víða um land. Á móti kemur að valdahlutföllin á Alþingi eru enn þá þannig að framkvæmdirnar úti um land eru mun líklegri til að fá fjárveitingu en samgöngubætur á suðvesturhorninu. Á næstu árum er ekki víst að höfuðborgarbúar fái samgöngubót eins og Sundabraut nema borga sjálfir fyrir að nota hana. Sennilega hefðu Hvalfjarðargöngin enn ekki verið boruð nema af því að það var gert í einkaframkvæmd og notendur borga.