Menning

Freistar þess að finna lík í listaverk í Mexíkó

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Snorri Ásmundsson auglýsti eftir líki í myndbandsverk í Fréttablaðinu fyrir nokkrum árum. Uppátækið olli miklu fjaðrafoki.
Snorri Ásmundsson auglýsti eftir líki í myndbandsverk í Fréttablaðinu fyrir nokkrum árum. Uppátækið olli miklu fjaðrafoki. MYND/SPESSI
„Við Auður fengum boð um að koma á listahátíðina La Calaca Festival í ár,” segir listamaðurinn Snorri Ásmundsson, sem heldur til Mexíkó í næstu viku, ásamt Auði Ómarsdóttur, til að taka þátt í La Calaca hátíðinni sem haldin er í kringum Dag hinna dauðu, eða día de los muertos.

„Þetta er þjóðhátíð Mexíkóa. Á þessum dögum koma vinir og fjölskyldur saman og biðja fyrir látnum vinum og fjölskyldumeðlimum,” útskýrir Snorri.

Dauðinn er þeim Snorra og Auði hugleikið fyrirbæri. „Dauðinn er sannarlega tíður gestur í okkar lífi. En það sem við viljum skoða er ólík nálgun Íslendinga og Mexíkóa á dauðann. Við sem íslenskir listamenn höfum mikinn áhuga á að rannsaka þessar framandi hefðir,” segir Snorri.

Verkið sem listamennirnir ætla að sýna á La Calaca ber heitið Dauðadansinn.

„Verkið er dramatískur gjörningur þar sem við leitumst við að persónugera dauðann útfrá upplifun okkar á mexíkóskri nálgun á dauðanum,” segir Snorri. Listaverk verða sýnd samhliða gjörningnum.

Fyrir nokkrum árum auglýsti Snorri eftir líki í myndbandsverk í Fréttablaðinu.

„Það vakti strax upp deilur og óhreinar hugsanir hjá nokkrum prestum sem gagnrýndu verkið í fréttum RÚV. Þeir gerðu ráð fyrir að ég væri að fara að gera eitthvað ósiðlegt við líkamsleifarnar, en því var fjarri,” segir Snorri.

„Ég hef ekki einu sinni hugmyndaflug í það. Ég ætlaði að vinna verkið í samráði við deyjandi manneskju og dokjúmentera samvinnuna og samtalið,” bætir hann við.

Snorri freistar þess að finna líkamann í verkið í Mexíkó.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×