Menning

Dansverkið Coming Up valið á Aerowaves

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Dansverkið Coming Up hefur verið valið í hóp þeirra verka sem evrópska sviðslistanetið Aerowaves mun setja í forgang árið 2014. „Það er auðvitað gaman fyrir unga danshöfunda að fá tækifæri til að sýna verkin sín erlendis,“ segir Melkorka Sigríður Magnúsdóttir, annar höfunda verksins.



Verkið var frumsýnt í Tjarnarbíói í mars síðastliðnum en það eru þær Melkorka og Katrín Gunnarsdóttir sem eru höfundar og flytjendur. Sýningin fékk lofsamlegar viðtökur og hlaut Grímuverðlaun í flokknum Danshöfundur ársins 2013.



Aerowaves-netið samanstendur af meira en 70 hátíðum, leikhúsum og sýningarstöðum vítt og breitt um Evrópu. Það er mikill heiður að komast í hóp útvalinna en í ár bárust rúmlega 400 umsóknir frá 34 löndum en einungis tuttugu verk voru valin. „Það er óskaplega mikils virði að komast inn í þetta tengslanet og fá þennan lykil að evrópsku danssenunni,“ segir Melkorka. „Þetta kom okkur mjög skemmtilega á óvart og við erum mjög þakklátar fyrir þetta tækifæri.“



Coming Up hefur sem sagt möguleika á að ferðast á dans- og leiklistarhátíðir víðs vegar á næsta ári, meðal annars Spring Forward-hátíðina sem haldin verður í Svíþjóð í apríl 2014. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×