Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra brást skjótt við og af festu þegar hann heyrði viðtal Heimis Más Péturssonar á Bylgjunni á föstudag við Pálma Stefánsson skipstjóra. Pálmi var á vettvangi og sagði Kolgrafafjörð kjaftfullan af síld, hún væri komin undir brú þar sem ekki mátti veiða. Lýsingar Pálma vöktu ugg en í fyrra drápust þar samtals 52 þúsund tonn af síld. Sjávarútvegsráðherra gekk þegar í að gefa út reglugerð sem kveður á um að veiðar innan við brúna í Kolgrafafirði séu frjálsar.
Ákvörðunina rökstuddi ráðherrann einfaldlega á þann hátt að með þessu væri verið að bjarga verðmætum og koma í veg fyrir umhverfisslys. Auk þess vonaðist hann til að veiðarnar gætu orðið til að fæla síldina út aftur, úr þeirri dauðagildru sem þarna virðist vera.
Í fréttum Stöðvar 2 um helgina var rætt við Bjarna Sigurbjörnsson, bónda á Eiði við Kolgrafafjörð, sem sagðist upplifa sig „í nafla alheimsins“. „Hérna eru risatogarar fyrir framan brúna og bátarnir fyrir innan og þótt það sé saklaust að horfa á þetta núna þá er þetta jafnsaklaust og í fyrra þegar við vöknuðum hérna einn morguninn og fjörurnar voru þaktar síld.“
Ekki er komin í gang áætlun til að koma í veg fyrir að síldin drepist í firðinum. Að sögn Bjarna tekur nú við viðbragðsáætlun um hreinsun og björgun verðmæta, eins og það var orðað í fréttum okkar um helgina. Um áætlunina miklu sagði Bjarni að það tæki „allt svo langan tíma í kerfinu. Það hefði að sjálfsögðu átt að gera þetta í sumar en svo urðu ráðherraskipti og þess háttar. Við sitjum í þessum samráðshópi þar sem er verið að ræða þessi mál. Það væri alveg hægt að ráðast í einhverjar aðgerðir en spurningin er bara hvaða aðgerðir. Nú erum við að falla á tíma – síldin er komin.“
Heimamenn hafa sent frá sér viðvaranir allt þetta ár og í október skoraði bæjarráð Grundarfjarðar á Sigurð Inga að leyfa lokun Kolgrafafjarðar. Tæknilega hefði verið mögulegt að gera það en svo mikið inngrip þyrfti að fara í umhverfismat. Sigurður Ingi segist vera í sambandi við innanríkisráðherra og segir að í skoðun sé að rjúfa veginn til að koma á hringrás í firðinum.
„Hann spáir dauðalogni og blíðu, það er ekki gott,“ sagði Bjarni í viðtali á Vísi á föstudag en það eru svipuð skilyrði og mynduðust síðasta vetur þegar síldin drapst, fyrst í desember í fyrra og svo 1. febrúar. Til að setja 52 þúsund tonn af dauðri síld í samhengi, þá gaf sjávarútvegsráðherra smábátum 300 tonna viðbótarkvóta á síld nýverið og þótti ágætt.
Á svona dögum er mikilvægt að stjórnvöld séu ekki föst í viðjum þunglamalegs kerfis. Yfirvöld verða að vera í stakk búin til að geta tekið skjótar ákvarðanir. Því miður gerist það of sjaldan að það er eins afdráttarlaust tekið af skarið og á föstudag. Líklega verður af nógu að taka í stórum ákvörðunum næstu daga.
Fastir pennar