Menning

Nú getur fólk drukkið í sig listina

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Þær Sara og Svanhildur kalla sig Dúósystur og oftar en ekki eru þær sjálfar viðfangsefni verkanna, settar í listasögulegt samhengi.
Þær Sara og Svanhildur kalla sig Dúósystur og oftar en ekki eru þær sjálfar viðfangsefni verkanna, settar í listasögulegt samhengi. Fréttablaðið/Valli
Myndlistarmennirnir Sara og Svanhildur Vilbergsdætur hafa vakið mikla athygli fyrir dúettmálverk sín sem þær mála í sameiningu. Nú hafa fimm af málverkum þeirra verið prentuð á kaffimál og þær systur hyggja á nýja landvinninga.

„Myndirnar okkar hafa fengið mjög góðar viðtökur, vakið mikið umtal og hrifningu, en þetta eru stórar og dýrar myndir þannig að salan hefur svo sem ekki verið neitt til að hrópa húrra fyrir,“ segir Sara spurð hvernig á því standi að þær systur, hún og Svanhildur, hafi gripið til þess ráðs að koma málverkum sínum á framfæri á kaffibollum. „Þegar frænka okkar kom síðan að máli við okkur og kynnti okkur þann draum sinn að fara að framleiða það sem hún kallar „listamál“, sem sagt kaffikrúsir með áprentuðum málverkum, leist okkur mjög vel á hugmyndina og slógum til.“

Fimm af málverkum systranna hafa öðlast framhaldslíf á kaffikrúsum.
Fimm af málverkum þeirra systra hafa verið prentuð á bolla nú þegar, í litlu upplagi, en meiningin er að hefja fjöldaframleiðslu síðar ef allt gengur upp, bæði á bollum með verkum þeirra og fleiri málara. „Þá getur fólk eignast málverkin fyrir tiltölulega lítið fé og drukkið í sig listina á hverjum degi,“ útskýrir Sara. „Það er nú varla hægt að komast í nánari snertingu við listaverk en það.“



Sara er með vinnustofu á Korpúlfsstöðum og þær Svanhildur taka þátt í opnu húsi þar á fimmtudaginn, þegar allir listamennirnir sem þar starfa opna vinnustofur sínar fyrir almenningi. „Við erum bara með um hundrað bolla til að selja,“ segir Sara, „þannig að það má segja að þetta séu nokkurs konar kynningareintök.“ Opna húsið stendur frá kl. 17 til 21 á fimmtudaginn og auk opnu vinnustofanna verða tónlistarmenn á staðnum og skemmta gestum. „Þetta verður skammdegishátíð,“ segir Sara. „Hugsuð til að létta fólki lundina í myrkrinu og við vonum að sem flestir leggi leið sína til okkar og skoði það sem hér er verið að gera.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×