Menning

Endurfundir við hraunið og æskuna

Símon Birgisson skrifar
Kristbergur pétursson málari sýnir verk sín í listasafni reykjanesbæjar.
Kristbergur pétursson málari sýnir verk sín í listasafni reykjanesbæjar.
Sýning á verkum hafnfirska myndlistarmannsins Kristbergs Ó. Péturssonar og Þórðar Hall var opnuð í Listasafni Reykjanesbæjar í byrjun mánaðarins. Sýningin ber heitið Endurfundir en Þórður var kennari Kristbergs við Myndlistar- og handíðaskólann fyrir um 30 árum.



Verk Kristbergs eru þó einnig endurfundir á annan hátt. Hann sækir innblástur sinn í hafnfirska hraunið og æskuslóðirnar þar sem hann ólst upp.

Mínar Esjur og Heklur



„Ég er fæddur og uppalinn í hrauninu í vesturbæ Hafnarfjarðar. Þetta er mjög sérkennilegt umhverfi frá náttúrunnar hendi og ég held alveg einstakt á heimsvísu. Hef ferðast víða um landið og hvergi séð jafn stórgert og gróft hraun, stórir klettar, djúpar gjótur – all hrikalegt í augum barns og hefur eflaust haft áhrif á list mína. Þarna eru mínar Esjur og Heklur,“ segir Kristbergur.

sækir innblástur í hraunið ljós og skuggar í verkum kristbergs.
Hann segir þetta umhverfi hafa fylgt sér alla tíð. „Þetta fylgir mér alltaf, svipað og Þorpið hans Jóns úr Vör,“ segir Kristbergur og bætir við: „Hvernig orðaði hann það: Móðir þín fylgir þér áleiðis en þorpið fer með þér alla leið.“



Málverk Kristbergs eru óhlutbundin, abstraktmyndir þar sem ljós og skuggar takast á. Hann segir verkin táknmyndir, metafórur. „Hraunið gæti verið metafóra fyrir lífsleiðina, krókótta og villugjarna, ókortlagða, ófyrirsjáanlega, hættulega,“ segir hann.



Erindi listamannsins

Sýningin er opin til 15. desember og er ein sú stærsta á ferli Kristbergs sem spannar um þrjá áratugi.



„Stundum finnst mér eins og ég sé ekki enn kominn yfir formálann í listferli mínum. Að ég sé enn að standa upp, ræskja mig og koma mér fyrir í pontunni kannski langt kominn með að gera grein fyrir sjálfum mér, hvaðan ég er kominn, hver ég er og hvaða erindi ég á við hina virðulegu samkomu. Kannski er ég lengi að koma mér að efninu. Kannski er ég einmitt löngu kominn að því. Hver veit?“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×