Menning

Flytja tónlist tengda árinu 1913

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Tónlistarkonurnar Þær Hanna Dóra og Steinunn Birna koma fram á tónleikum á morgun sem tilheyra röðinni Klassík í Salnum.
Tónlistarkonurnar Þær Hanna Dóra og Steinunn Birna koma fram á tónleikum á morgun sem tilheyra röðinni Klassík í Salnum. Fréttablaðið/Vilhelm
„Mig langaði að taka eitthvað eftir Benjamin Britten í tilefni þess að hundrað ár eru frá því að hann fæddist. Ég hef verið aðdáandi hans um langt skeið. Mér finnst stíllinn hans svo frábær því hann er óhræddur við að taka efni beint úr lífinu,“ segir Hanna Dóra Sturludóttir messósópransöngkona sem syngur í Salnum á morgun við undirleik Steinunnar Birnu Ragnarsdóttur píanóleikara.

Þær taka tvo ljóðaflokka eftir Britten sem Hanna Dóra kveðst ekki hafa sungið áður. Annar þeirra er A Charm of Lullabies, vöggusöngvar sem hún segir ólíka innbyrðis, suma mjög ljúfa, aðra með strangari tón og einn sem túlki meiri hörku. Hún kveðst ekki hafa prófað þá á börnum. „En eins og margir foreldrar þekkja er stundum erfitt að vita hvaða brögðum á að beita til að svæfa,“ segir hún glaðlega. Í hinum ljóðaflokknum eru kabarettlög.

„Svo fór ég að hugsa hvað ég gæti haft með Britten og hóf að grafast fyrir um íslensk lög sem hægt væri að tengja við þetta ártal. Þá datt ég niður á þrjú sönglög eftir Árna Thorsteinsson sem hann samdi í leikritið Lénharð fógeta eftir Einar H. Kvaran en það var einmitt frumsýnt árið 1913,“ heldur Hanna Dóra áfram og nefnir að síðustu ljóðaflokk á dagskránni eftir spænska tónskáldið Manuel de Falla, frá sama tíma. „Þar sem ég hef verið að syngja Carmen var gaman að halda áfram í spænskum stíl.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×