Menning

Engar loðnar kanínur og bleikar prinsessur

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Sif Sigmarsdóttir "Bækur eru fyrst og fremst bara annaðhvort góðar bókmenntir eða ekki.“
Sif Sigmarsdóttir "Bækur eru fyrst og fremst bara annaðhvort góðar bókmenntir eða ekki.“ Fréttablaðið/GVA
„Þetta er alveg ótrúlegt, ég er í hálfgerðu sjokki,“ segir Sif Sigmarsdóttir um velgengni fyrsta bindis Freyjusögu, Múrsins, sem tilnefnd er bæði til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna, auk þess að vera ofarlega á metsölulistum og hafa hlotið rífandi góða dóma gagnrýnenda. „Maður vonast auðvitað alltaf eftir góðum viðbrögðum við því sem maður skrifar, en þótt maður sé sjálfur rosalega ánægður með eigin grip þá veit enginn hvernig aðrir taka honum, þannig að, nei, ég hafði ekki séð þetta fyrir mér.“



Freyjusaga er framtíðarsaga sem kölluð hefur verið hinir íslensku Hungurleikar, en Sif segist hafa verið byrjuð á sögunni löngu áður en Hungurleikarnir komu fram á sjónarsviðið. „Þessi bók er búin að vera vandræðalega lengi í vinnslu, nærri sex ár, en hugmyndin kviknaði fyrst þegar ég var í námi í barnabókmenntum í Bretlandi. Ég byrjaði þar árið 2002 og var þá svakalega skotin í Philip Pullman og bókunum hans um Gyllta áttavitann. Eftir að ég las þær var ég staðráðin í að skrifa einhverja drungalega fantasíu. Svo vildi þannig til að það fengu allir sömu hugmynd á svipuðum tíma og síðan þá hafa komið út margar bækur í þessum anda. Þegar ég las Hungurleikana hugsaði ég: Andskotinn, hún stal hugmyndinni minni.“



Einhverjum lesendum hafa þótt lýsingarnar í Múrnum ansi hrottalegar, finnst þér það sjálfri? „Nei, alls ekki. Það er hins vegar dálítið algengt þegar kemur að unglingabókum að fólki finnist að þær eigi að vera voða saklausar og krúttlegar og fullar af loðnum kanínum og bleikum prinsessum, en ég er alls ekki sammála því. Við sem erum að skrifa fyrir unglinga erum að keppa við blóðuga tölvuleiki og sjónvarpsþætti og þurfum bara hreinlega að vera samkeppnishæf. Enda held ég að unglingarnir þoli þetta smáræði nú alveg, það er aðallega fullorðna fólkið sem barmar sér yfir hvað þetta sé ógeðslegt.“



Margir líta á skrif barnabóka sem tilhlaup eða upphitun fyrir skrif „alvöru“ bókmennta, ertu á þeim buxunum? „Nei mig hefur alltaf langað að skrifa unglingabækur. Ein fyrsta spurningin sem ég fékk þegar fyrsta unglingabókin mín kom út var einmitt: Hvenær ætlarðu að skrifa alvöru bók? Mér finnst hins vegar barnabókmenntir vera alvöru bókmenntir og börn og unglingar eru mjög kröfuharðir lesendur. Það er alveg óþarfi að flokka þær sem eitthvert óæðra form. Bækur eru fyrst og fremst bara annaðhvort góðar bókmenntir eða ekki, alveg sama fyrir hvaða aldurshóp er skrifað.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×