Menning

Börnin flýja átök fullorðinna

Friðrika Benónýsdóttir skrifar
Sigrún Eldjárn: 
"Fólki hættir til að taka ekki almennilegt mark á barnabókum sem er náttúrulega fáránlegt.“
Sigrún Eldjárn: "Fólki hættir til að taka ekki almennilegt mark á barnabókum sem er náttúrulega fáránlegt.“
„Þetta er spennandi saga um börn sem strjúka að heiman vegna þess að fullorðna fólkið hefur brugðist þeim,“ segir Sigrún Eldjárn beðin að segja í stuttu máli frá innihaldi bókar sinnar, Strokubörnin á Skuggaskeri. „Þau búa í dal sem heitir Fagridalur. Áin sem rennur eftir dalnum skiptir honum í tvennt. Öðrum megin er þorpið Vesturhlíð og hinum megin Austurhlíð og þar hefur allt leikið í lyndi og íbúar þorpanna hafa alltaf verið vinir. Það breytist hins vegar þegar í ljós kemur að í hólma úti í miðri ánni er auðlind í jörðu.“



Er þetta sem sagt pólitísk allegoría? „Ja, ástæðan fyrir því að börnin strjúka að heiman er að líf þeirra verður óbærilegt þegar fullorðna fólkið fer að berjast um þennan hólma. Fyrst fylgir sagan börnum úr Vesturhlíð sem flýja á báti út í drungalegt sker sem heitir Skuggasker og koma sér þar fyrir, síðar koma krakkar úr Austurhlíð og setjast þar að og sagan fjallar mest um samskipti þessara krakka sem hittast á Skuggaskeri.“



Spurð hvort sögutími og -staður sé Ísland samtímans segir Sigrún að það komi reyndar hvergi fram að þetta sé á Íslandi en sagan sé samtímasaga. Hún dregur hins vegar seiminn þegar spurt er hvort sagan sé að einhverju leyti fantasía. „Nei, ekki beinlínis,“ segir hún. „Mér finnst reyndar svona flokkun óþægileg. Í sögum mínum gerist reyndar oft eitthvað yfirnáttúrulegt, en það er minna af því í þessari sögu en oft áður, þótt vissulega sé ýmislegt skrítið sem gerist í sambandi við þessa auðlind og hólmann.“



Bókin er tilnefnd bæði til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna og hefur fengið rífandi dóma. „Ég er mjög glöð með það,“ segir Sigrún. „Ég hef reynt að vanda mig, eins og ég geri reyndar alltaf. Eins og í öllum mínum bókum er í þessari mikið af myndum, enda legg ég mikið upp úr því, það er bara partur af minni sköpun.“



Þetta er í fyrsta sinn sem barnabækur fá sérstakan flokk í Íslensku bókmenntaverðlaununum, en hingað til hafa þær verið gjaldgengar í hinum flokkunum. Sigrún segir það skipta máli fyrir barnabókmenntirnar að hljóta þessa viðurkenningu. „Ég held að tvær bækur hafi verið tilnefndar í flokki fagurbókmennta og ein í flokki fræðibóka á þessum 25 árum sem verðlaunin hafa verið veitt, þannig að það er augljóst að þær hafa átt erfitt uppdráttar. Fólki hættir til að taka ekki almennilegt mark á barnabókum sem er náttúrulega fáránlegt, því þær skipta miklu máli. Vonandi breytist það með tilkomu þessa flokks og því að barnabækur hafa fengið sinn flokk í Norrænu bókmenntaverðlaununum.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.