Harmageddon

Mammút í sparifötunum á útgáfutónleikum

Orri Freyr Rúnarsson skrifar
Hljómsveitin Mammút fagnar útgáfu plötunnar Komdu til mín svarta systir undir lok mánaðarins.
Hljómsveitin Mammút fagnar útgáfu plötunnar Komdu til mín svarta systir undir lok mánaðarins. mynd/Ronja Mogensen
Hljómsveitin Mammút fagnar útgáfu plötunar „Komdu til mín svarta systir“ næstkomandi fimmtudagskvöld í Gamla Bíó en platan hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda og var valinn plata ársins víða, m.a. af álitsgjöfum Fréttablaðsins. Þar að auki er hljómsveitin tilnefnd til sjö verðlauna á Íslensku tónlistarverðlaununum.

Þær Ása Dýradóttir og Alexandra Baldursdóttir, bassaleikari og gítarleikari hljómsveitarinnar mættu í smá spjall á X-ið til að fara yfir hvað er framundan hjá Mammút. Þær segja að það séu ýmis járn í eldinum og það eigi allt saman eftir að koma betur í ljós en þær gátu þó upplýst að Mammút stefnir á að spila á tónleikum um land allt í sumar.

En um plötuna sögðu þær að velgengni hennar hefði komið talsvert á óvart. „Við vorum búin að vera að vinna í þessari plötu svo lengi og vorum orðin svo rugluð að við vissum ekkert hvað við vorum með í höndunum lengur, annaðhvort það besta sem myndi koma út á árinu eða versta, eða okkur var farið að líða þannig“ sagði Alexandra.

Um ástæðuna fyrir því að Gamla Bíó var valið sem vettvangur útgáfutónleikanna sögðu þær ástæðuna vera fyrst og fremst hversu fallegur salurinn væri og að það væri draumur allra íslenskra hljómsveita að spila þar. Svo er framboðið á tónleikastöðum í Reykjavík ekki ýkja mikið.

Um útgáfutóneikana sjálfa sögðu þær að hljómsveitin færi í sparifötin og myndi spila öll lögin á nýju plötunni auk þess að spila lög af öðrum plötum sínu. „Það má segja að þetta sé líka 10 ára afmæli hljómsveitarinnar“ sagði Ása og af því tilefni verða nokkur gömul lög flutt í nýjum búning á þessum tónleikum.

Um uppáhalds lagið sitt af plötunni eru þær Ása og Alexandra sammála um að þeim þyki hvað vænst um lagið „Salt“ en boltinn hafi farið að rúlla eftir að þau kláruðu það lag. „Við vorum búin að vera að hjakkast í einhverju sem við fýluðum ekki alveg áður en að það lag kom“.

Miðasala á útgáfutónleikana er í fullum gangi á midi.is og eru aðeins örfáir miðar eftir.

Hægt er að hlusta á viðtalið hér að ofan.








×