Formúla 1

Massa biður fyrir Schumacher á hverjum degi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Felipe Massa og Michael Schumacher.
Felipe Massa og Michael Schumacher. Vísir/NordicPhotos/Getty

Brasilíumaðurinn Felipe Massa segist biðja fyrir Michael Schumacher á hverjum degi en hinn 45 ára gamli Schumacher liggur enn í dái eftir að hafa dottið illa á skíðum 29. desember síðastliðinn.



„Kæri Michael, minn góði vinur. Þú hjálpaðir mér svo mikið á mínum ferli og ég bið fyrir þér á hverjum degi. Ég vil fá tækifæri til að faðma þig," skrifaði Felipe Massa á heimasíðu Ferrari.



Líðan Schumacher er stöðug en hann er samt enn í lífshættu á spítala í Grenoble eftir að hafa fengið slæmt höfuðhögg í brekkunni við Meribel skíðastaðinn.



Felipe Massa og Michael Schumacher kepptu saman fyrir Ferrari síðasta tímabil Schumacher hjá ítalska félaginu. Massa varð þá þriðji á eftir Schumacher en Fernando Alonso vann heimsmeistaratitilinn.



Felipe Massa, sem er 32 ára gamall, heiðraði Michael Schumacher á dögunum þegar hann var með nafn hans á hjálminum sínum í árlegri Go-kart keppni í heimalandi sínu.

Vísir/NordicPhotos/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×