Körfubolti

Oklahoma City kom fram hefndum gegn Lakers | Myndbönd

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Oklahoma City Thunder kom fram hefndum gegn Los Angeles Lakers í NBA-deildinni í körfubolta nótt eftir óvæntan sigur Lakers-manna í leik liðanna fyrr í vikunni.

Oklahoma-liðið valtaði yfir Lakers-menn í nótt, 131-102, í leik sem var aldrei spennandi en KevinDurant og Russell Westbrook skoruðu báðir 29 stig fyrir heimamenn.

Hjá Lakers var Jodie Meeks stigahæstur með 19 stig en liðið féll með tapinu aftur á botn vesturdeildarinnar. Oklahoma er sem fyrr í öðru sæti vestursins á eftir San Antonio.

Hið ólseiga lið Chicago Bulls heldur áfram að gera góða hluti en liðið vann Houston Rockets á heimavelli í nótt, 111-87.

Joakim Noah átti frábæran leik fyrir Chicago og var grátlega nálægt þrennu en hann skoraði 13 stig, tók 10 fráköst og gaf 9 stoðsendingar. Annars skoraði allt byrjunarlið Chicago meira en tíu stig.

Aðeins einn úr byrjunarliði Houston skoraði meira en tíu stig. Það var miðherjinn Dwight Howard sem skoraði 12 auk þess sem hann tók 10 fráköst. Myndarleg tvenna. Stigahæstur gestanna var Francisco Garcia sem skoraði 21 stig af bekknum.

Í spilaranum hér að ofan má sjá frammistöðu Durants og Westbrooks í nótt en hér að neðan eru fimm flottustu tilþrif næturinnar.

Úrslit næturinnar:

Chicago Bulls - Houston Rockets 111-87

Atlanta Hawks - Milwaukee Bucks 102-97

Oklahoma City Thunder - Los Angeles Lakers 131-102

Staðan í deildinni.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×