Körfubolti

Kobe Bryant spilar ekki fleiri leiki á tímabilinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kobe Bryant.
Kobe Bryant. Vísir/AP
Los Angeles Lakers tilkynnti það í kvöld að Kobe Bryant muni ekki spila fleiri leiki með liðinu í NBA-deildinni í körfubolta á þessu tímabili en Bryant er að ná sér eftir að hafa meiðst á fæti í desember.

Kobe Bryant missti af fyrstu 19 leikjum tímabilsins vegna þess að hann var að ná sér eftir hásinarslit í apríl í fyrra. Kobe náði aðeins að spila sex leiki áður en hann meiddist illa á fæti í leik á móti Memphis.

Þetta er átjánda tímabil Kobe Bryant og hann fær fyrir það 30,4 milljónir dollara, 3,4 milljarða íslenskra króna, þrátt fyrir að ná aðeins að spila sex leiki. Lakers borgar þó ekki alla upphæðina því tryggingar munu sjá um hluta hennar.

Kobe Bryant var með 13,8 stig og 6,3 stoðsendingar að meðaltali í þessum sex leikjum en hitti aðeins úr 18,8 prósent þriggja stiga skota sinna.

Los Angeles Lakers hefur tapað 42 af 64 leikjum sínum á leiktíðinni og er í dag eitt allra slakasta liðið í Vesturdeildinni. Kobe Bryant og félagar vonast nú eftir góðum valrétti í nýliðavalinu í sumar.

Kobe Bryant á tvö ár eftir af samningi sínum við Los Angeles Lakers en hann verður 36 ára gamall á næstu leiktíð. Lakers var tilbúið að borga honum 48 milljónir dollara fyrir næstu tvö tímabil eða 5,4 milljarða íslenskra króna.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×