Körfubolti

NBA í nótt: Cleveland stöðvaði New York

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
New York missti af upplögðu tækifæri til að styrkja stöðu sína í baráttunni um sæti í úrslitakeppni NBA-deildarinnar.

Cleveland vann New York á útivelli, 106-100, þar sem Jarret Jack skoraði 31 stig og var óstöðvandi undir lok leiksins. Að sama skapi gekk ekkert upp hjá Knicks-mönnum og þá sérstaklega Carmelo Anthony sem klikkaði á síðustu fimm skotum sínum í leiknum.

Fyrr um kvöldið hafði Atlanta tapað fyrir Toronto og hefði því sigur fært New York enn nær sæti í úrslitakeppninni. En Atlanta, sem er í áttunda sæti austurdeildarinnar, er enn með tveggja sigurleikja forystu á Knicks.

Toronto vann tíu stiga sigur á Atlanta, 96-86, þrátt fyrir að hafa verið ellefu stigum undir í fjórða leikhluta. Kyle Lowry skoraði 25 stig fyrir Toronto en þetta var annað tap Atlanta í röð eftir fimm sigurleiki í röð.



Spennan er ekki síður mikil vestanmegin um síðustu sætin í úrslitakeppninni. Phoenix er nú í mikilli baráttu við Memphis og Dallas um síðustu tvö sætin í úrslitakeppninni eftir frábæra endurkomu gegn Minnesota í nótt.

Phoenix vann, 127-120, en var mest 22 stigum undir í fyrri hálfleik. Kevin Love var með 36 stig og fjórtán fráköst fyrir Minnesota en Phoenix skaut frábærlega í síðari hálfleik og tryggði sér sigur á lokamínútunum eftir að staðan var jöfn, 118-118.



Dallas tapaði hins vegar fyrir Brooklyn, 107-104, í framlengdum leik þar sem Joe Johnson var allt í öllu. Hann skoraði 22 stig fyrir Nets, tryggði liðinu framlengingu og setti niður þrist í lok framlengingarinnar sem fór langt með að tryggja sigurinn.

Brooklyn er í góðri stöðu í fimmta sæti austurdeildarinnar en þjálfari liðsins er Jason Kidd, fyrrum leikmaður Dallas. Hann hélt upp á 41 árs afmæli sitt í gær.

Úrslit næturinnar:

Toronto - Atlanta 96-86

Minnesota - Phoenix 120-127

Denver - Washington 105-102

Sacramento - Milwaukee 124-107

Dallas - Brooklyn 104-107

New York - Cleveland 100-106

LA Lakers - Orlando 103-94

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×