Körfubolti

Dirk Nowitzki komst upp í 10. sætið á stigalistanum í NBA | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Þjóðverjinn Dirk Nowitzki, leikmaður Dallas Mavericks í NBA-deildinni í körfubolta, hitti úr 9 af 11 skotum sínum gegn Utan Jazz í nótt og skoraði 21 stig í öruggum 95-83 sigri Dallas.

Leikurinn var sögulegur fyrir Nowitzki því hann komst upp í 10. sætið á stigalistanum yfir mestu skorarana í NBA-deildinni frá upphafi. Á topp 10 listanum eru nöfn á borð við Michael Jordan, Wilt Chamberlain og stigakónginn sjálfan, KareemAbdul-Jabbar.

Nowitzki hirti 10. sætið af goðsögninni OscarRobertson sem skoraði 26,710 stig á 14 ára ferli með Cincinatti Royals og Milwaukee Bucks á árunum 1960-1974. Hann varð meistari með Milwaukee árið 1971.

Þjóðverjinn er nú búinn að skora 26,714 stig en hann komst upp fyrir Robertson með laglegu stökkskoti úr teignum í fjórða leikhluta. Eitthvað sem hann hefur gert nokkrum sinnum áður.

Dirk fór upp fyrir Oscar Robertson.Vísir/Getty
Dirk Nowitzki var valinn níundi í nýliðavalinu af Milwaukee Bucks árið 1998 en var um leið skipt til Dallas Mavericks þar sem hann hefur spilað síðan.

Á 15. leiktíðum með Dallas hefur Nowitzki einu sinni orðið meistari en það var árið 2011 þegar liðið lagði Miami Heat í úrslitum, 4-2. Þjóðverjinn var þá kjörinn mikilvægasti leikmaður lokaúrslitanna.

Hann var kjörinn besti leikmaður deildarinnar árið 2007 og hefur tólf sinnum verið í stjörnuliði vesturdeildarinnar. Nowitzki hefur fjórum sinnum verið kjörinn í lið ársins og er auðvitað stigahæsti leikmaður Dallas Mavericks frá upphafi.

Tíu stigahæstur mennirnir í sögu NBA:

1. Kareem Abdul-Jabbar, 38,387 stig

2. Karl Malone, 36,928

3. Michael Jordan, 32,292

4. Kobe Bryant, 31,700

5. Wilt Chamberlain, 31,419

6. Shaquille O’Neal, 28,596

7. Moses Malone, 27,409

8. Elvin Hayes, 27,313

9. Hakeem Olajuwon, 26,946

10. Dirk Nowitzki, 26,714

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×