Körfubolti

Rasistinn verður neyddur til að selja Clippers

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Donald Sterling er búinn að vera.
Donald Sterling er búinn að vera. Vísir/Getty
Adam Silver, nýr framkvæmdastjóri NBA-deildarinnar í körfubolta, tók máli DonaldsSterlings, eiganda Los Angeles Clippers, engum vettlingatökum en hann hélt þrumuræðu á blaðamannafundi í dag.

Silver úrskurðaði Sterling í ævilangt bann við afskiptum af NBA-deildinni vegna þeirra ummæla sem hann lét falla um minnihlutahópa, þá sérstaklega þeldökkt fólk, í samtali við kærustu sína.

Slúðurvefsíðan TMZ komst yfir upptökuna og birti hana um helgina en Sterling talaði þar m.a. um að hann vildi ekki að kærastan sín umgengist svart fólk og hún mætti alls ekki koma með það á leiki liðsins.

Sterling verður lagður í útlegð frá NBA-deildinni en hann má aldrei framar mæta á leiki í deildinni, ekki mæta á æfingu hjá neinu liði og ekki vera nálægt skrifstofu Clippers-liðsins né annarra félaga. Hann má heldur ekki taka neinar viðskiptalegar ákvarðanir hjá Clippers né hafa áhrif á leikmannamál félagsins.

Adam Silver sagðist ætla hvetja aðra eigendur í deildinni til að neyða Sterling til að selja félagið og sjálfur mun hann gera allt sem í sínu valdi stendur þannig að svo verði. Að auki var hann sektaður um 2,5 milljónir dala, hámarkssekt í NBA.

Eins og greint var frá í gær þá hafa margir af stærstu styrktaraðilum Clippers yfirgefið félagið vegna ummælanna en enginn vill láta bendla sig við Donald Sterling í dag.

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×