Innlent

Lagasetning leysir ekki deiluna

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Flugmálastarfsmenn um land allt felldu niður störf í morgun í fimm klukkustundir. Tæp vika er í að allsherjarverkfall skelli á og engin lausn virðist í sjónmáli. Ríkisstjórn hefur ekki rætt hugsanlega lagasetningu á verkfallið.

Flugmálastarfsmenn lögðu niður störf klukkan fjögur í morgun og stóð verkfallið yfir í fimm klukkustundir með tilheyrandi raski á flugi til og frá landinu. Þetta er þriðja skammtímaverkfallið í apríl en boðað hefur verið til allsherjaverkfalls næstkomandi miðvikudag takist ekki samningar.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu þá hefur ekki hefur komið til umræðu í ríkisstjórn að setja lög á verkfall flugmálastarfsmanna líkt og gert var í verkfalli starfsmanna Herjólfs í byrjun mánaðarins. Vel er hins vegar fylgst með málinu í innanríkisráðuneytinu sem fer með samgöngumál. Formaður félags flugmálastarfsmanna varar við lagasetningu og segir hana enga lausn.

„Er virkilega svo komið að menn leysa vinnudeilur með lagasetningu. Ég trúi því ekki fyrr en ég tek á því,“ segir Kristján Jóhannsson, formaður FFR.

„Ég trúi því ekki að þingmenn suðurkjördæmis láti það óátalið að svona stór hópur, á stærsta vinnustað kjördæmisins, einum stærsta vinnustað landsins, geti ekki sótt sér kjarabætur á löglegan hátt með eðlilegum kröfum án þess að það þurfi að koma til lagasetningar.“

Flugmálastarfsmenn höfnuðu samningstilboði Samtaka atvinnulífsins á miðvikudag og var gert hlé á viðræðum í kjölfarið. Ríkissáttasemjari hefur boðað samningaðila til fundar síðdegis á sunnudag en þá verða þrír dagar í boðað allsherjarverkfall.


Tengdar fréttir

Flugvallarstarfsmenn með hálfa milljón á mánuði

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir að flugvallarstarfsmenn séu með um hálfa milljón í mánaðarlaun. Hann segir þá krefjast 26 prósenta hækkunar á launum sem komi ekki til greina að semja um.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×