Körfubolti

NBA í nótt: Houston í vandræðum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Portland er komið í 2-0 forystu gegn Houston í rimmu liðanna í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta.

Houston tapaði báðum leikjunum á heimavelli, þeim síðari í nótt, 112-105. Rimman færist nú til Portland þar sem næstu tveir leikir fara fram en fjóra sigra þarf til a komast áfram í næstu umferð.

LaMarcus Aldridge átti frábæran leik fyrir Portland og skoraði 43 stig. Hann hefur þar með skorað minnst 40 stig í tveimur leikjum í röð í úrslitakeppninn og er fyrsti leikmaðurinn sem nær því síðan LeBron James gerði það árið 2009.

James Harden setti niður þriggja stiga körfu þegar 30 sekúndur voru eftir og minnkaði þá muninn í þrjú stig fyrir Houston. En Portland kláraði leikinn á vítalínunni.

Dwight Howard byrjaði vel fyrir Houston í nótt og skoraði 25 stig í fyrri hálfleik - en aðeins sjö í þeim síðari.



Miami er komið í 2-0 forystu gegn Charlotte eftir sigur í nótt, 101-97. Dwayne Wade stal boltanum á lokasekúndum leiksins sem tryggði Miami endanlega sigurinn.

LeBron James skoraði 32 stig og Chris Bosh 20. Michael Kidd-Gilchrist skoraði 22 stig fyrir Charlotte.

Dallas vann San Antonio, 113-92, og jafnaði þar með metin í rimmu liðanna í 1-1. San Antonio hafði unnið Dallas tíu sinnum í röð fyrir leik næturinnar.

Monta Ellis skoraði 21 stig í öruggum sigri Dallas og Shawn Marion bætti við 20 stigum. Manu Ginobili var með 27 stig fyrir Spurs og Tony Parker tólf.

Úrslit næturinnar:

Miami - Charlotte 101-97 (2-0)

San Antonio - Dallas 92-113 (1-1)

Houston - Portland 105-112 (0-2)

Staðan í úrslitakeppninni

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×