Körfubolti

NBA í nótt: Memphis jafnaði metin

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Leikmenn Memphis fagna í nótt.
Leikmenn Memphis fagna í nótt. Vísir/AP
Tveir leikir fóru fram í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í nótt en Oklahoma City tapaði á heimaveli fyrir Memphis, 111-105, í framlengdum leik.

Staðan í rimmu liðanna í 8-liða úrslitum vesturdeildarinnar er því jöfn, 1-1.

Zach Randolph skoraði 25 stig fyrir Memphis, þar af tveggja stiga körfu þegar 26 sekúndur voru eftir af framlengingu leiksins.

Serge Ibaka tapaði boltanum í næstu sókn Oklahoma City og það reyndist liðinu of dýrkeypt. Kevin Durant klikkaði á þriggja stiga skoti og Memphis kláraði leikinn af vítalínunni.

Durant sýndi reyndar ótrúleg tilþrif þegar hann setti niður þriggja skot í lok fjórða leikhluta og fiskaði villu þar að auki, eins og sjá má neðst í fréttinni. Durant minnkaði þar með muninn í eitt stig og rúmar tíu sekúndur eftir af leiknum.

Mike Conley fór þá á vítalínuna en klikkaði á öðru skota sinna. Oklahoma City hélt í sókn og Russell Westbrook reyndi að tryggja liðinu sigur með þriggja stiga skoti en það geigaði. Kendrick Perkins náði hins vegar sóknarfrákastinu og jafnaði þar með metin rétt áður en leiktíminn rann út.

Conley var með nítján stig og tólf stoðsendingar fyrir Memphis en stigahæstur hjá Oklahoma City var Durant með 36 stig. Westbrook kom næstur með 29 stig en nýtti aðeins ellefu af 28 skotum sínum í leiknum.



LA Clippers vann stórsigur á Golden State, 138-98, og jafnaði þar með metin í rimmunni í 1-1.

Blake Griffin skoraði 35 stig fyrir Clippers sem er persónulegt met hjá honum í leik í úrslitakeppni. Chris Paul bætti við tíu stigum en hann gaf einnig tíu stoðsendingar.

Stephen Curry skoraði 24 stig, þar af 20 í þriðja leikhluta. Klay Thompson var aðeins með sjö stig.

Staðan í úrslitakeppninni.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×