Körfubolti

NBA: Þrír útisigrar á fyrsta degi úrslitakeppninnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin Durant og Russell Westbrook.
Kevin Durant og Russell Westbrook. Vísir/AP
Úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta hófst í nótt og það er óhætt að segja að minni spámennirnir hafi farið vel af stað því Toronto Raptors, Los Angeles Clippers og Indiana Pacers töpuðu öll á heimavelli. Oklahoma City Thunder var eina heimaliðið sem vann sinn leik en það lið sem fyrr vinnur fjóra leiki kemst áfram í aðra umferð.

Klay Thompson skoraði 22 stig og David Lee var með 20 stig fyrir Golden State Warriors sem vann 109-105 útsigur á Los Angeles Clippers. Blake Griffin og Chris Paul, lykilmenn Clippers, voru báðir í villuvandræðum í leiknum. Chris Paul skoraði samt 28 stig og J.J. Redick var með 22 stig. Griffin var með 16 stig en fékk sína sjöttu villu 48 sekúndum fyrir leikslok þegar staðan var jöfn. DeAndre Jordan skoraði 11 stig og tók 14 fráköst fyrir Clippers-liðið.

Kevin Durant skoraði 13 af 33 stigum sínum í fjórða leikhlutanum þar Oklahoma City Thunder vann 100-86 sigur á Memphis Grizzlies. Thunder-liðið var þar með eina heimaliðið sem vann sinn leik á degi 1 í úrslitakeppni NBA-deildarinnar en liðið var næstum því búið að missa niður 25 stiga forskot þegar OKC-menn gáfu í og kláruðu leikinn með flottum lokaleikhluta. Russell Westbrook var með 23 stig og 10 fráköst og Serge Ibaka skoraði 17 stig og tók 9 fráköst fyrir Thunder-liðið. Zach Randolph var atkvæðamestur hjá Memphis með 21 stig og 11 fráköst.

Jeff Teague setti nýtt persónulegt stigamet í úrslitakeppni þegar hann skoraði 28 stig fyrir Atlanta Hawks liðið sem vann 101-93 útisigur á Indiana Pacers. Paul Millsap var með 25 stig fyrir Atlanta sem var áttunda og síðasta liðið inn í úrslitakeppni Austurdeildarinnar. Paul George va atkvæðamestur hjá Indiana með 24 stig og 10 fráköst en Pacers-menn voru í vandræðum á síðustu vikunum fyrir úrslitakeppni. Hawks-liðið lagði grunninn að sigrinum með 14-0 spretti í þriðja leikhluta en umræddur Jeff Teague var þá með níu stig.

Deron Williams og Joe Johnson skoruðu báðir 24 stig fyrir Brooklyn Nets sem vann 94-87 útisigur á Toronto Raptors en úrslitakeppni NBA-deildarinnar byrjaði að þessu sinni í Kanada. Paul Pierce skoraði 9 af 15 stigum sínum í lokaleikhlutanum. Kyle Lowry skoraði mest fyrir Toronto eða 22 stig en Litháinn Jonas Valanciunas var með 17 stig og 18 fráköst. Valanciunas setti þarna nýtt Toronto-met í fráköstum í úrslitakeppni.



Úrslitin í NBA-deildinni í nótt og staðan í einvígunum:

 - Austurdeildin -

Indiana Pacers (1) - (8) Atlanta Hawks 93-101

(0-1 fyrir Atlanta)

Toronto Raptors (3) - (6) Brooklyn Nets 87-94

(0-1 fyrir Brooklyn)

 - Vesturdeildin -

Oklahoma City Thunder (2) - (7) Memphis Grizzlies 100-86

(1-0 fyrir Oklahoma City)

Los Angeles Clippers (3) - (6) Golden State Warriors 105-109

(0-1 fyrir Golden State)











NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×