Körfubolti

Indiana og OKC jöfnuðu metin | Hibbert með stórleik

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Indiana Pacers jafnaði einvígið gegn Washington Wizards, 1-1, með fjögurra stiga sigri á heimavelli, 86-82, í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Austurdeildar NBA í nótt. Liðin fara því jöfn til Wasington í næstu leiki.

Indiana hefur spilað hræðilega síðan í febrúar og þar hefur enginn verið verri en miðherjinn Roy Hibbert. Stóri maðurinn, sem var svo öflugur framan af tímabili, er búinn að vera ævintýralega lélegur og spila heilu og hálfu leikina án þess að skora stig eða taka fráköst.

Annað var uppi á teningnum í nótt. Hibbert hefur tekið lýsið sitt í gærkvöldi því hann skoraði 28 stig og tók 9 fráköst. Hann var með frábæra nýtingu en hann hitti úr 10 af 13 skotum sínum í teignum og öllum átta vítaskotunum sínum.

Hjá Washington var Marcin Gortat, miðherji liðsins, einnig stigahæstur en hann skoraði 21 stig og tók 11 fráköst. Bradley Beal hjálpaði til með 17 stigum og 7 stoðsendingum en það dugði ekki til að þessu sinni.

Þruman í Oklahoma City jafnaði einnig einvígið sitt gegn LA Clippers í 1-1 á heimavelli í nótt með sigri, 112-101, sem var mikilvægt því nú færist einvígið til Los Angeles.

Kevin Durant hélt upp á að vera kosinn besti leikmaður deildarinnar með 32 stigum, 12 fráköstum og 9 stoðsendingum en félagi hans, RussellWestbrook, náði þrennunni sem Durant leitaði eftir með 31 stigi, 10 fráköstum og 10 stoðsendingum. Þeir áttu frekar góðan leik í kvöld.

Chris Paul var atkvæðamestur hjá Clippers með 17 stig, 5 fráköst og 11 stoðsendingar en Blake Griffin skoraði 15 stig og tók 6 fráköst.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×