Körfubolti

Magic fagnaði því á twitter að D'Antoni sé hættur með Lakers

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mike D'Antoni.
Mike D'Antoni. Vísir/Getty
Mike D'Antoni mun ekki þjálfa NBA-lið Los Angeles Lakers áfram á næsta tímabili en hann hætti sem þjálfari liðsins í gær. Lakers-liðið átti skelfilegt tímabil og þarf nú að finna sér nýjan þjálfara.

Lakers-goðsögnin Magic Johnson var fljótur inn á twitter þegar fréttist af afsögn D'Antoni og fagnaði því. „Mike D'Antoni hættur sem þjálfari Lakers. Ég gæti ekki verið ánægðari," skrifaði Magic og talaði um að von væri á gleðidögum á ný.

Þetta þýðir að Lakers er að leita að sínum fjórða þjálfara á þremur árum en D'Antoni tók við af Mike Brown sem var rekinn í byrjun tímabilsins 2012-13. Phil Jackson þjálfaði liðið til 2011.

Lakers-liðið glímdi við mikil meiðsli á leiktíðinni og vann aðeins 27 af 82 leikjum sínum sem er slakasti árangur liðsins í meira en hálfa öld. Stjörnuleikmennirnir Kobe Bryant, Steve Nash og Pau Gasol var sárt saknað stærsta hluta tímabilsins.

D'Antoni stýrði Lakers-liðinu í 154 leikjum og liðið vann 67 þeirra eða 43 prósent leikja í boði.

D'Antoni átti eitt ár eftir af samningi sínum en lagði mikla áherslu á að fá eitt aukaár til að eiga einhverja möguleika á því að gera eitthvað með liðið á næstu árum. Það fékk hann ekki og því ákvað D'Antoni að segja þetta gott í Englaborginni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×