Körfubolti

NBA: Durant öflugur þegar OKC komst áfram - Indiana kláraði líka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Russell Westbrook í leiknum í nótt.
Russell Westbrook í leiknum í nótt. Vísir/Getty
Oklahoma City Thunder og Indiana Pacers eru komin í úrslit í sínum deildum eftir sigra á útivelli í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta í nótt. OKC vann sex stiga sigur á Los Angeles Clippers og Indiana vann 13 stiga sigur á Washington Wizards.

Kevin Durant var með 39 stig og 16 fráköst þegar Oklahoma City Thunder komst í úrslit Vesturdeildarinnar eftir 104-98 sigur á Los Angeles Clippers í Staples Center. Russell Westbrook var með 19 stig og 12 stoðsendingar en OKC er komið í úrslit Vestursins í þriðja sinn á fjórum árum.

Clippers-liðið komst reyndar sextán stigum yfir í leiknum í nótt en líkt og í leik fimm þá komu leikmenn Thunder sterkir til baka í lokin. Oklahoma City Thunder mætir San Antonio Spurs í úrslitum Vesturdeildarinnar.

Chris Paul var með 25 stig og 11 stoðsendingar fyrir Los Angeles Clippers og Blake Griffin bætti við 22 stigum.

David West skoraði 29 stig fyrir Indiana Pacers sem vann 93-80 sigur á Washington Wizards en með því tryggði Indiana-liðið sér 4-2 sigur í seríunni og sæti í úrslitum Austurdeildar á móti Miami Heat. Þetta er annað árið í röð sem liðin spila upp á sæti í lokaúrslitunum.

Lance Stephenson var með 17 stig og 8 stoðsendingar fyrir Indiana sem tekur á móti Miami í leik eitt á sunnudaginn. Marcin Gortat var stigahæstur hjá Washington Wizards með 19 stig.

Wizards-liðið var yfir í leiknum þegar átta og hálf mínúta var eftir en Indiana vann lokakaflann 20-6 og tryggði sér flottan sigur á útivelli.









NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×