Körfubolti

NBA: LeBron James með 49 stig og nýtt Miami-met

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James var heitur í nótt.
LeBron James var heitur í nótt. Vísir/Getty
LeBron James og félagar í Miami Heat eru komnir í 3-1 í einvíginu á móti Brooklyn Nets í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfubolta eftir sex stiga sigur í Brooklyn í nótt. Portland Trailblazers er enn á lífi eftir sigur á San Antonio Spurs en Spurs gat með sigri orðið fyrsta liðið til að komast upp úr annarri umferðinni.

LeBron James jafnaði sitt persónulega met í úrslitakeppni og setti nýtt Miami-met þegar hann skoraði 49 stig í 102-96 sigri á Brooklyn Nets í Brooklyn í nótt. Miami er komið í 3-1 og getur tryggt sér sæti í næstu umferð með sigri á heimavelli í næsta leik.

Chris Bosh kom Miami yfir þegar 57 sekúndur voru eftir og Miami-menn lönduðu sigrinum í kjölfarið. James átti möguleika á því að skora sitt fimmtugasta stig en klikkaði á víti þegar 1,1 sekúnda var eftir af leiknum.

James hitti úr 16 af 24 skotum sínum utan af velli og 14 af 19 vítum sínum. Hann skoraði áður 49 stig í einum leik í úrslitakeppninni fyrir Cleveland á móti Orlando í úrslitum Austurdeildarinnar árið 2009.

Dwyane Wade var með 15 stig en hann missti þarna félagsmetið yfir flest stig í leik í úrslitakeppninni sem var 46 stig. Chris Bosh skoraði 12 stig.

Joe Johnson var stigahæstur hjá Brooklyn Nets með 18 stig og Paul Pierce kom næstur með 16 stig.

Damian Lillard var með 25 stig þegar Portland Trail Blazers vann 103-92 sigur á San Anontio Spurs og kom í veg fyrir sóp en Spurs er nú 3-1 yfir. Frakkinn Nicolas Batum var mjög öflugur fyrir Trail Blazers liðið en hann var með 14 stig, 14 fráköst og 8 stoðsendingar  í leiknum.

Tony Parker skoraði "bara" 14 stig en hann hafði skoraði 29 stig eða meira í þremur af síðustu fjórum leikjum sínum. Parker og Tim Duncan komu ekki meira við sögu eftir að Portland náði 20 stiga forskoti í þriðja leikhlutanum.











NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×