Körfubolti

Thunder og Pacers komin yfir

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Paul á ekki möguleika á að verjast Durant
Paul á ekki möguleika á að verjast Durant vísir/afp
Tveir leikir fóru fram í úrslitakeppni NBA körfuboltans í Bandaríkjunum í nótt. Indiana Pacers lagði Washington Wizards örugglega 85-63 og Oklahoma City Thunder lagði LA Clippers 118-112 í Los Angeles.

Leikirnir voru mjög ólíkir eins og tölurnar gefa til kynna. Fátt var um fína drætti sóknarlega í Washington þar sem Pacers lagði alla áherslu á varnarleikinn og jafna skiptingu milli leikmanna í sókninni.

Wizards vann fyrsta leikinn í einvíginu en Pacers er komið í bílstjórasætið í fyrsta sinn í einvíginu og er 2-1 yfir.

Paul George skoraði 23 stig fyrir Pacers og tók 8 fráköst. Roy Hibbert skoraði 14 stig og David West 12. Hjá Wizards skoraði Bradley Beal 16 stig og John Wall 15.

Sama staða er uppi í einvígi Thunder og Clippers. Clippers vann fyrsta leikinn á útivelli en Thunder hefur nú unnið tvo leiki í röð og er komið yfir í spennandi einvíginu.

Leikurinn í Los Angeles var jafn og spennandi nánast allan leikinn. Clippers var fjórum stigum yfir þegar kom að fjórða leikhluta en réð ekkert við sóknarleik Thunder í síðasta leikhlutanum.

Kevin Durant var magnaður að vanda fyrir Thunder. Hann skoraði 36 stig, tók 8 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. Russel Westbrook var ekki síðri með 23 stig, 13 stoðsendingar og 8 fráköst. Þrátt fyrir villuvandræði í leiknum skoraði Serge Ibaka 20 stig en hann hitti úr öllum 9 skotum sínum innan þriggja stiga línunnar.

Blake Griffin skoraði 34 stig fyrir Clippers og tók 8 fráköst. Chris Paul skoraði 21 stig og gaf 16 stoðsendingar og Jamal Crawford skoraði 20 stig.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×