Körfubolti

NBA í nótt: Spurs meistari í fimmta sinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/AP
San Antonio Spurs varð í nótt NBA-meistari í fimmta sinn í sögu félagsins með sigri á Miami Heat, 104-87, í fimmta leik liðanna í lokaúrslitum.

San Antonio var sannfærandi í lokaúrslitunum og vann rimmunna, 4-1. Þetta var fimmti titill félagsins frá upphafi en Tim Duncan hefur tekið þátt í þeim öllum.  Þetta var fjórði titill þeirra Tony Parker og Manu Ginobili.

Þessi sömu lið áttust við í lokaúrslitunum í fyrra og hafði þá Miami betur í oddaleik. Í nótt kom ekkert annað til greina en sigur og byrjuðu LeBron James og félagar af miklum krafti og komust mest sextán stigum yfir strax í fyrsta leikhluta.

„Við vorum frábærir í fyrsta leikhluta en eftir það voru þeir með betra liðið. Þess vegna eru þeir meistarar árið 2014,“ sagði James eftir leikinn en hann varð stigahæstur í sínu liði með 31 stig auk þess sem hann tók tíu fráköst.

Kawhi Leonard var kjörinn mikilvægasti leikmaður úrslitakeppninar en hann skoraði 22 stig fyrir Spurs og tók tíu fráköst. En þegar það kom að baráttu „stóru þriggja“ leikmanna liðanna höfðu þeir Duncan, Parker og Ginobili betur gegn James, Dwyane Wade og Chris Bosh enda sigursælasta tríó í sögu NBA-úrslitanna.

Bosh var með þrettán stig í nótt og Wade ellefu en hann nýtti aðeins fjögur af tólf skotum sínum í leiknum.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×