Körfubolti

LeBron James fundaði með Wade og Bosh í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James, Dwyane Wade og Chris Bosh.
LeBron James, Dwyane Wade og Chris Bosh. Vísir/Getty
Vinirnir og liðsfélagarnir LeBron James, Dwyane Wade og Chris Bosh hittust í gær og ræddu framtíð sína en næstu skref þeirra á körfuboltaferlinum mun einnig ráða miklu um framtíð Miami Heat liðsins í NBA-deildinni í körfubolta. Miami Herald segir frá fundi stjórstjarna Miami Heat liðsins.

LeBron James hefur þegar sagt upp samningi sínum við Miami Heat (fórnaði 42 milljónum dollara - 4,78 milljörðum íslenskra króna) og er hann því laus allra mála en bæði Dwyane Wade og Chris Bosh geta fetað sömu slóð fyrir miðnætti á mánudaginn.

Miami Herald hefur heimildir fyrir þessum fundi kappanna en þeir snæddu saman á matsölustað á South Beach. James, Wade og Bosh hafa unnið tvo meistaratitla saman hjá Miami Heat og farið í lokaúrslitin öll fjögur tímabilin sín saman.

Bandarískir fjölmiðlar hafa rifjað það upp að árið 2006 hittust þessir þrír á öðrum fundi þar sem þeir ákváðu að skrifa allir undir þriggja ára framlengingu á samningi sínum til þess að þeir yrðu allir samningslausir á sama tíma. Á þeim tíma lék Bosh með Toronto Raptors og LeBron með Cleveland Cavaliers

ESPN segir frá því að LeBron James mun einnig vera í sambandi við vin sinn Carmelo Anthony sem er laus allra mála eins og hann. Melo sagði upp samningi sinum hjá New York Knicks.

NBA

Tengdar fréttir

LeBron nýtti sér uppsagnarákvæðið

LeBron James nýtti sér uppsagnarákvæði í samningi sínum við Miami Heat og er því laus allra mála samkvæmt heimildum ESPN. Hann hefur verið orðaður við Cleveland Cavaliers undanfarna mánuði.

Utan vallar: Hvað er LeBron James að spá?

Vísir fer yfir hvaða ástæður gætu legið að baki ákvörðun LeBron James um að nýta sér uppsagnarákvæði í samningi sínum við Miami Heat. Djúpt er kafað og skoðað hvort hann ætli sér jafnvel að vera áfram hjá Heat og sé að hjálpa liðinu að landa annarri stórstjörnu.

NBA-lið láta sig dreyma um að semja við bæði LeBron og Melo

Stærstu fréttir NBA-deildarinnar í körfubolta á síðustu dögum eru án vafa þær að stórstjörnurnar LeBron James og Carmelo Anthony nýttu báðir ákvæði í samningum sínum við lið sín Miami Heat (James) og New York Knicks (Anthony) og geta því samið við hvaða lið sem er í sumar.

Anthony laus allra mála

Carmelo Anthony verður stærsti bitinn á leikmannamarkaðnum í NBA-deildinni í sumar en hann losaði sig undan samningi í gær samkvæmt ESPN.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×