Körfubolti

ESPN-spekingarnir spá því allir að LeBron spili áfram með Miami

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James.
LeBron James. Vísir/Getty
LeBron James er með lausan samning og getur því valið sér lið í NBA-deildinni. ESPN fékk fimm NBA-sérfræðinga til að velta fyrir sér framtíðarplönum þessarar stærstu stjörnu NBA-deildarinnar í dag.

NBA-spekingarnir sem um ræðir voru þeir J.A. Adande, Amin Elhassan, Israel Gutierrez og Tom Haberstroh hjá ESPN og Ethan Sherwood Strauss hjá TrueHoop. Það má sjá vangaveltur þeirra í heild sinni með því að smella hér.

Fjórir af fimm voru ekki hissa á því að LeBron James skyldi nýta sér ákvæði í samninginum við Miami Heat þrátt fyrir að James hafi átt tvö ár eftir sem hefðu gefið honum yfir 42 milljónir dollara í vasann eða meira en 4,8 milljarða íslenskra króna.

Sherwood Strauss bjóst aftur á móti ekki við þessu fyrr en á næsta ári og það kom honum líka mikið á óvart að ekkert sé að frétta af ákvörðunum þeirra Chris Bosh og Dwyane Wade. Bosh og Wade voru með sama ákvæði í sínum samningi en hvorugur hefur enn gefið það upp hvað þeir ætli að gera.

Fyrrnefndum NBA-spekingum finnst líka öllum nema einum að Miami Heat sé besti kosturinn í stöðunni fyrir Lebron á næsta tímabili en það er aðeins Tom Haberstroh sem er á því að James eigi að semja við Los Angeles Clippers og gerast liðsfélagi Chris Paul.

Allir fimm eru hinsvegar sannfærðir um að LeBron James sé ekki á förum úr blíðunni á Flórída og að hann muni því spila með Miami Heat tímabilið 2014-15.

NBA

Tengdar fréttir

LeBron nýtti sér uppsagnarákvæðið

LeBron James nýtti sér uppsagnarákvæði í samningi sínum við Miami Heat og er því laus allra mála samkvæmt heimildum ESPN. Hann hefur verið orðaður við Cleveland Cavaliers undanfarna mánuði.

Utan vallar: Hvað er LeBron James að spá?

Vísir fer yfir hvaða ástæður gætu legið að baki ákvörðun LeBron James um að nýta sér uppsagnarákvæði í samningi sínum við Miami Heat. Djúpt er kafað og skoðað hvort hann ætli sér jafnvel að vera áfram hjá Heat og sé að hjálpa liðinu að landa annarri stórstjörnu.

NBA-lið láta sig dreyma um að semja við bæði LeBron og Melo

Stærstu fréttir NBA-deildarinnar í körfubolta á síðustu dögum eru án vafa þær að stórstjörnurnar LeBron James og Carmelo Anthony nýttu báðir ákvæði í samningum sínum við lið sín Miami Heat (James) og New York Knicks (Anthony) og geta því samið við hvaða lið sem er í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×