Erlent

Ebóla breiðist enn út

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/afp
Um 330 manns hafa látist í Vestur-Afríku á þessu ári af völdum e-bólu veiru. Sjúkdómurinn er sagður sá allra versti og skæðasti í sögunni.

Ebólunnar varð fyrst vart í Gíneu í mars á þessu ári og hefur hún síðan þá náð að breiðast út til nærliggjandi landa, Líberíu og Sierra Leone og er allra leiða leitað til að hefta útbreiðslu hennar. Til að mynda hefur verið lokað fyrir öll viðskipti til Sierra Leone frá Gíneu og Líberíu, skólum hefur verið lokað og öllum helstu almenningsstöðum.

Um fjörutíu starfsmenn hjálparsamtakanna Læknar án landamæra eru í Gíneu og Sierra Leone og berjast þeir við sjúkdóminn auk innlendra lækna. Samtökin hafa gagnrýnt stjórnvöld harðlega fyrir að bregðast ekki nægilega vel við og skora á alþjóðastofnanir að bregðast strax við.

Mikil skelfing hefur gripið um sig í þessum og nærliggjandi löndum og óttast er að veiran haldi áfram að breiðast út verði ekki gripið til róttækra aðgerða.

Ebóla er ein hættulegasta veira sem þekkist, er bráðsmitandi og engin lækning til við sjúkdómnum. Fyrsta skráða tilfellið kom upp í Austur-Kongó árið 1976 og hefur síðan þá hefur veiran kostað tæplega 1.600 manns lífið.  Í kjölfar smits herjar veiran á nær öll líffæri manneskjunnar og étur upp vefi líkamans. 

Allt að 90 prósent þeirra sem smitast af veirunni deyja innan nokkurra daga.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×